151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það fer ekki fram hjá þeim sem eru glöggir að á lista yfir flutningsmenn þessa frumvarps vantar einn forsætisnefndarmann, þann sem hér stendur, og fyrir því er gild ástæða. Ég og félagar mínir gerum ekki athugasemdir við það nema síður sé að aðstöðumunur sé jafnaður milli þingmanna og þeirra sem sækjast eftir þingsæti í fyrsta sinn. En það vantar einn hóp inn í það mengi sem hér er og það eru ráðherrar. Í grunninn, oftast nær, eru ráðherrar þingmenn, við höfum reyndar einn ráðherra núna sem er ekki þingmaður, og okkur hugnast ekki sú leið að framselja það sem viðkemur ráðherrum í ríkisstjórn hverju sinni til framkvæmdarvaldsins, að einhverjir embættismenn geti vélað þar um og að þeir séu undanþegnir þessu lagaákvæði. Í raun og veru er það atriði sem gæti verið efni í rökræðu, en hér segir:

„Réttur þingmanns skv. 1. og 2. mgr., sem sækist eftir endurkjöri, fellur niður þegar sex vikur eru til kjördags.“

Ég segi aftur: Þetta á ekki að gilda um alla þingmenn. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði hér í andsvari: Við öll 63 hér inni. En þetta frumvarp er ekki um okkur öll 63 hér inni. Sá hópur sem gegnir ráðherrastörfum er undanþeginn, akkúrat á þeim tíma þegar borðaklippingar standa sem hæst, akkúrat á þeim tíma þegar menn gera sér erindi vítt og breitt um landið til að klappa sjálfum sér á bakið í undanfara kosninga. Ég verð að segja að ég gef ekkert fyrir það bréf sem kom frá ráðuneytisstjórum forsætis- og fjármálaráðuneytis um að þessu verði breytt í takt, þ.e. að eftir að þetta frumvarp verður að lögum verði þessu breytt hvað ráðherra varðar. Okkur finnst rangt að búa til þetta bil á milli ráðherra og þingmanna.

Ég segi aftur: Í grunninn, oftast nær og yfirleitt, eru ráðherrar þingmenn og þetta er ekki bara aðstöðumunur milli ráðherra og þingmanna sem sækjast eftir endurkjöri, þetta er aðstöðumunur milli ríkisstjórnarflokkanna hverju sinni og stjórnarandstöðunnar hverju sinni. Það segir sig sjálft að þessir 12, eða hvað þeir eru margir, sem ferðast um landið í svörtum bílum á hverjum tíma, eru með yfirburðaaðstöðu miðað við aðra þingmenn sem sækjast eftir endurkjöri. Ég finn að þessu. Ég er enn sama sinnis og þegar frumvarpið fór í gegnum forsætisnefnd, ég er ekki sammála því af þessari ástæðu. Mér finnst satt að segja nóg um, og hefur fundist þann stutta tíma sem ég hef setið á Alþingi sem þingmaður, hversu mikið af valdi þingsins er í sífellu framselt í hendur embættismanna — ágætisfólk allt saman en það hefur enginn kosið það. Þetta ágæta fólk, eins vandað og það er, þarf ekki að standa reikningsskil gerða sinna á fjögurra ára fresti eins og þeir sem sitja í þessum sal.

Ég hef tekið eitt dæmi ótal oft í þessu sambandi og það eru fjárlög hvers árs. Fjárlög hvers árs eru 98%, að því er ég giska á, verk embættismanna og við því verður ekki hróflað. Ég er reyndar búinn að finna að þessu síðan 2013 en ætla enn að biðja kjósendur mína og þjóðina alla velvirðingar á því að hafa samþykkt lög um opinber fjármál, sem er stærsta valdframsal frá stjórnmálamönnum til embættismanna á síðari tímum, og ég tel að það hafi verið mikil mistök. Um leið og búið er að hefta fjárlög hvers árs í bindi þá eru þau á ábyrgð þeirra sem hér eru þó að þeir eigi 2% í þeim. Ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi framkvæmd fjárlaga þá eru það ekki þeir sem sömdu fjárlögin sem bera ábyrgðina, ábyrgðin endar hér eins og hún á réttilega að gera. Það þýðir líka að þetta þing og þingmenn þurfa þá að vera virkari gerendur en þeir eru nú, t.d. í þessu máli.

Mér hefur fundist, þann tíma sem ég hef setið hér, að það sé ákveðinn héraháttur í gangi varðandi laun þingmanna. Hinn ágæti þingmaður, sem hér kom upp áðan í andsvari, Andrés Ingi Jónsson spurði: Af hverju erum við ekki með starfskostnað samkvæmt reikningi? Ég get alveg tekið undir það. Ég er sjálfsagt búinn að stórtapa í gegnum tíðina á því að svo er ekki. En það er ekkert nýtt fyrir mér í sjálfu sér, það er yfirleitt þannig að ef á einhvern þarf að halla í því hvernig maður nálgast opinbert fé þá er ég meira fyrir það að láta sjálfur eitthvað af hendi frekar en að ganga lengra en góðu hófi gegnir eða ganga eins langt og hægt er. Það er bara prívatvandamál, örugglega. Ég gæti alveg tekið undir þetta með hv. þingmanni. Ég get nefnt eitt dæmi: Ef þingmenn sem t.d. hafa til þess vilja að sækja ráðstefnur erlendis og ætla að nota starfskostnað sinn til að standa straum af því má ferðalagið ekki vera dýrt til þess að það gangi upp; menn geta hugsanlega notað starfskostnað heils árs til að standa straum af slíku. Að því leyti til þyrftu að sjálfsögðu að vera girðingar í því hvaða rétt menn hafa á greiðslu starfskostnaðar.

Síðan er annað líka og það er bara sératriði sem þyrfti að fara yfir, þ.e. hvaða kostnaður er það sem er endurgreiddur. Ég hef stundum sagt að á fyrstu árunum mínum hér hafi ég ekki tekið jafn mikið af leigubílum áður á langri ævi. Það fór svo að þegar maður tók leigubíl þá hætti ég að nenna að rukka fyrir það því það fylgdi þessu svo mikil skriffinnska — hvaðan maður væri að koma og hvert maður hefði farið, hvert erindið hefði verið o.s.frv. Það endaði með því að maður nennti ekki að fara út í það.

Þá ætla ég að segja annað: Starfandi í ráðuneyti hoppa menn upp í leigubíl og fara borgarhluta á milli og enginn spyr neins. Enda eru menn að sjálfsögðu að vinna, ég er ekkert að gera lítið úr því. Á sama tíma erum við sem hér störfum með einhverja smotterísreikninga og þurfum að skila með þeim einhverri ritgerð, í hvaða erindagjörðum við höfum verið, hvert við höfum verið að fara og hvaðan við höfum verið að koma. Það er þessi héraháttur sem hefur farið í taugarnar á mér og líka umræðan um launakjör þingmanna, en að mínu mati eiga launakjörin að vera góð. Ég reyndi að draga þetta fram með því að setja fram mjög viðamikla fyrirspurn, svo viðamikla að mörgum brá í brún, um starfskjör skipaðra embættismanna og starfsmanna í stofnunum og ráðuneytum. Ég held ég geti fullyrt að það sé enginn forstöðumaður ríkisstofnunar með jafn litla stofnun að hann sé ekki betur settur launalega en alþingismaður. Ég get nefnt annað dæmi. Það er til hugtak sem heitir skrifstofustjóri án skrifstofu í ráðuneyti og slík störf verða til af ýmsum ástæðum. Mér er ekki örgrannt um að slíkur starfsmaður sé sirka jafnsettur þingmanni, þ.e. þingmanni sem er með álag vegna nefndarformennsku eða varaformennsku eða einhvers slíks. Ég hef stundum orðað þetta þannig: Ef við værum til sjós væri það alveg klárt að háseti og bátsmaður væru ekki hærra launaðir en stýrimaður. Ég er ekki að segja þetta af hroka heldur er ég að spyrja: Hvar liggur ábyrgðin? Ef hún liggur hér, sem hún gerir að mínu áliti, og við þurfum að standa skil á því á fjögurra ára fresti, þá eiga launakjörin að vera í samræmi við það. Ég er ekkert að væla yfir þessu, við tökum þetta að okkur af því að okkur langar til að gera þetta, af því að við viljum gera þetta, ekki endilega út af því að það sé biðröð út á götu af fólki sem er að biðja okkur um að gera þetta. Það er samt þannig að vinnudagar þingmanna sem sinna starfi sínu eru nokkuð langir.

Þetta var aðeins útúrdúr en ég ætlaði samt sem áður að segja: Ráðherrar eru í grunninn, í allflestum tilfellum, þingmenn. Mér finnst ekki rétt að skáka ráðherrum á hverjum tíma út fyrir þann kassa að vera þingmenn. Mér finnst ekki að við eigum að gera það sjálfviljug að breikka bil, ímyndað eða ekki ímyndað, á milli ráðherra og þingmanns hér í þessum sal. Mér finnst það ekki. Mér finnst ekki að við eigum að stuðla að því og mér finnst ekki að við eigum að stuðla að því með því að sleppa ráðherrum á hverjum tíma við þessa lagasetningu sem er ætluð fyrir þingmenn, ekki okkur öll 63, heldur 63 mínus fjölda ráðherra hverju sinni, nema utan þings. Þessi aðstöðumunur er eftir og mín spá er sú að t.d. núna, ef þetta frumvarp verður að lögum nú fyrir þinglok, muni nýjar reglur varðandi ráðherra líta dagsins ljós. Ég myndi veðja á nóvember þessa árs, eftir næstu kosningar. Þeim reglum sem verða settar verður ekki áfrýjað. Þingmenn munu ekki segja: Heyrðu, abba babb, þetta átti ekki alveg að vera svona. Það verður ekki þannig. Þessar reglur verða settar í ráðuneytunum fyrir ráðherrana og við sitjum hjá og horfum á gerðan hlut. Þetta finnst mér rangt, herra forseti.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns: Okkur Miðflokksfólki finnst alveg sjálfsagður hlutur að reynt sé að jafna aðstöðumuninn sem er á þingmannsefni og kjörnum fulltrúa sem er að sækjast eftir endurkjöri, alveg sjálfsagt mál. En okkur þykir að það eigi að gilda um alla kjörna fulltrúa sem sækjast eftir endurkjöri, þar með talda ráðherra. Af þeim ástæðum er ekki hægt að styðja þetta frumvarp. Þó að það sé örugglega vel meint gengur það ekki nema hálfa leið, því miður. Það hefði verið kjörið tækifæri nú, eins og hér hefur komið fram, að jafna þennan aðstöðumun einu sinni, bara í eitt skipti fyrir öll. Nei, það var ekki gert. Þessi hópur var skilinn eftir illu heilli. Þess vegna er ekki hægt að styðja þetta frumvarp.