151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:28]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Hv. þingmaður verður bara að gangast við sínum málflutningi. Hann er auðvitað að segja að við hér, átta erum við, allir félagar hans í forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúar, séum að leggja hér fram mál sem gangi út á það að undanskilja ráðherra, að þeir eigi að geta ferðast áfram á kostnað ríkisins í kosningabaráttu en ekki þingmenn. Það er ekki rétt. Það er bara ekki rétt. Ég fór yfir það í framsögu minni hvers vegna verkaskiptingin er eins og hún er og það var Alþingi sem hafði betur í þeim efnum. Fyrirkomulagið er eins og Alþingi vildi hafa það. Kostnaður af embættisferðum ráðherra er auðvitað borinn af ríkinu þegar hann ferðast í störfum sínum sem ráðherra en til þess að tryggja að hann hafi sömu stöðu hvað varðar stjórnmálastarfið og þingmenn þá ber fjármálaráðherra að setja reglur um að hann njóti sömu kjara að því leyti, fái sams konar ferðakostnað endurgreiddan ef hann er í pólitískum erindum og þingmenn fá. Ráðherranum ber að hafa reglurnar eins og Alþingi ákveður í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað og reglum á þeim grunni. Fjármálaráðherra hefur ekkert val í þeim efnum. Hann er bundinn af því þannig að það er ekki hægt að halda því fram að hér sé verið vísvitandi að undanskilja ráðherra og ég sit ekki undir því þegjandi. Ef ráðherra myndi dragnast með það að setja reglur fram í nóvember þá yrði ég jafn ósáttur og hv. þingmaður. Ég skal lofa honum því að ég mun fylgjast mjög grannt með því að reglur Stjórnarráðsins taki tafarlaust breytingum verði þetta gert að lögum.