151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Með framlagningu þessa frumvarps sem hv. flutningsmaður, forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hefur mælt fyrir þá er verið að — menn hafi nú notað hér líkingamál um það — slá botninn a.m.k. í anga af umræðu sem hefur átt sér nokkuð langt líf í forsætisnefnd og raunar í samfélaginu um hríð lengst af þessu kjörtímabili, þ.e. um starfskjör, ferðakostnað og fyrirgreiðslu sem þingmenn njóta starfa sinna vegna. Þá er einkum horft til þeirra sem eiga lengra að sækja og aka töluvert mikið, það hefur nú verið helsta umræðuefnið. Það hefur verið kallað eftir auknu gegnsæi, skýrum viðmiðum og skýru verklagi og það er mjög eðlilegt. Ég leyfi mér að segja að öll sú umræða sem farið hefur fram í forsætisnefnd hefur verið gagnleg og mjög málefnaleg og ábyrg. Ég leyfi mér líka að segja að forseti hefur tekið það alvarlega sem sagt hefur verið og hvernig umfjöllun hefur verið og leitast við að bæta úr. Það er skemmst frá því að segja að öll framkvæmd sem snýr að samþykktum reglum um þingfararkostnað og vinnureglur um ferðakostnað innan lands hefur verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar og þetta eru nú gegnsæjar reglur og allar upplýsingar aðgengilegar, eins og hv. flutningsmaður kom inn á, á vef Alþingis og reglufesta í þessu er með ágætum.

Það er skiljanlegt og það er ekki verið að gagnrýna það hér að þetta var gert að umtalsefni á sinni tíð fyrir nokkrum misserum, þessi kostnaðarliður sem virtist vera allhár og mikill og hafa farið úr böndunum. Það er nú allt saman teygjanlegt en þeir sem í hlut áttu leituðust við að fara eftir þeim reglum sem í gildi voru á þeim tíma. Þær byggðust kannski á því að menn gerðu þetta eftir bestu sannfæringu og samvisku og ekki var hægt að sýna fram á að reglur væru brotnar. Í allri umræðunni í forsætisnefnd stóð hugur forseta til að taka þetta líka til skoðunar sem nú hefur verið gert og það er vel. Ég met það svo að í forsætisnefnd sé samhljómur um þetta efni og í meginatriðum enginn ágreiningur því að það er auðvitað eðlilegt að hér ríki reglufesta.

Hér er verið að leitast við að sanngirni sé gætt og réttlætis, að tryggja betur jafnræði með annars vegar þeim þingmönnum sem sækjast eftir endurkjöri, með endurgreiðslu ferðakostnaðar, og hins vegar þeim nýju þingmönnum eða þingmannsefnum eða eins og hv. flutningsmaður kom inn á, nýjum stjórnmálasamtökum t.d. til að koma sér á framfæri við kjósendur. Það hefur verið metið svo að sex vikur fyrir kjördag séu hæfilegur frestur til að skella þessu á. Eins og kom fram í flutningi framsögumanns þá eru auðvitað eðlilegar undanþágur heimilar því að lífið hefur sinn gang og störfin í þinginu eru unnin fram á kjördag. En frumvarpið nær ekki til þeirra þingmanna sem ekki hyggjast gefa kost á sér áfram til setu á Alþingi. Það kann vel að vera að það atriði megi taka til skoðunar líka, hvort það sé í þeim eðlilega farvegi sem það er nú. Ég get fallist á ýmis sjónarmið í því sambandi.

Ég ætlaði rétt aðeins að drepa niður fæti af þessu tilefni, tel að hér sé unnið að umbótamáli og eflaust, eins og kom fram hér í andsvörum, megi vinna að fleiri verkefnum á þessu sviði. En gegnsæið er algjört. Og af því að ég er einn þeirra þingmanna sem er undir það seldur að vera svokallaður heimanakstursmaður þá tel ég þetta vera í mjög góðu horfi og ég geri t.d. grein fyrir hverjum einasta kílómetra sem ég ek og geri skil á því í rafrænni akstursdagbók.

Þingflokkur Samfylkingarinnar styður þessar breytingar efnislega sem frumvarpið felur í sér. En auðvitað er sá stuðningur bundinn því að fjármála- og efnahagsráðuneytið fullvinni tillögur að breytingum á reglum um greiðslu ferðakostnaðar og önnur starfskjör ráðherranna og að þær feli í sér sambærilegar takmarkanir á endurgreiðslu ferðakostnaðar ráðherra í aðdraganda kosninga og lagt er upp með í þessu frumvarpi. Það ætti raunar, eins og kom fram hjá hv. flutningsmanni, að leiða af sjálfu sér, enda liggur fyrir staðfesting forsætisráðuneytis um að unnið sé að því að sú verði framkvæmdin.