151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Eins og ég sagði þegar ég átti hér orðastað við hv. flutningsmann þá ræðum við frumvarp sem horfir til umbóta í störfum þingsins og er hluti af langri vegferð sem hefur verið í gangi af nokkrum ákafa frá því að sá sem hér stendur settist á þing en teygir sig enn lengra aftur og snýst m.a. um það hvaða kröfur almenningur gerir til kjörinna fulltrúa. Þær kröfur hafa breyst í áranna rás og nú er svo komið að hluti af því að vera fagleg í störfum okkar sem þingmenn er að gera okkur grein fyrir t.d. þeim aðstöðumun sem er á milli okkar og þeirra sem sækjast eftir því að komast hingað inn án þess að vera í sömu aðstöðu og við. Þess vegna er mjög jákvætt að hér sé reynt að jafna þann aðstöðumun með því að koma skýrum og að ég vona mátulega ströngum ramma utan um endurgreiðslur á ferðakostnaði þingmanna þegar fer að halla að kosningum.

En af því að þetta er hluti af löngu ferli þá langar mig að nefna nokkrar vörður á þessari leið. Ein af hinum stærri er þegar Alþingi fór að birta á vef Alþingis hinar ýmsu upplýsingar um kostnaðargreiðslur til þingmanna. Þar á bæði hv. flutningsmaður þessa máls mikið hrós skilið fyrir að hafa leitt þá vinnu sem forseti Alþingis, en líka sá forseti sem situr nú í stólnum fyrir að hafa dregið fram í dagsljósið upplýsingar sem var ekki auðvelt að fá fram en skiptu miklu máli varðandi endurgreiðslur vegna ferða þingmanna á eigin bifreiðum. Nú er staðan sú að ég gat gert mér það að leik hérna úti í sal meðan ég beið þess að komast í pontu að hlaða niður skrá sem inniheldur allar kostnaðargreiðslur til allra þingmanna frá árinu 2012 og ég gat fengið töflureikni til að reikna út fyrir mig að árið 2017 voru endurgreiðslur vegna ferða á eigin bíl 27,8 milljónir en árið eftir 8,6 milljónir. Á móti höfðu greiðslur vegna ferða með bílaleigubíl hækkað en ekki nándar nærri jafn mikið og endurgreiðslur vegna eigin bifreiða lækkuðu. Þetta er svo gott dæmi um sótthreinsiáhrif sólarljóssins, hvað það lagar ástandið stundum bara að draga hlutina fram í dagsljósið. Við það að upplýsingar um endurgreiðslur til þingmanna urðu opinberar virðast þingmenn hafa farið að nálgast þessi forréttindi sín með, það liggur við að ég segi meiri virðingu en alla vega fóru þeir varlegar í sakirnar.

Mig langar í samhengi við þetta frumvarp sem við ræðum að nefna frumvarp sem ég lagði fram árið 2019, náði að mæla fyrir og gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og liggur við að megi kalla að það byggi á fornum grunni. Þar er annars vegar um að ræða tillögu sem Ögmundur Jónasson lagði fram fyrir 26 árum um að einvörðungu yrði endurgreiddur starfskostnaður til þingmanna samkvæmt reikningum en ekki sem fastur kostnaður hvern mánuð og hins vegar tillögu sem Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram á sama tíma þess efnis að ráðherrar ættu ekki kost á endurgreiðslu starfskostnaðar. Hvorug þessara tillagna náði fram að ganga árið 1995 og náðu ekki fram að ganga með því frumvarpi sem ég lagði fram á 149. löggjafarþingi en efnahags- og viðskiptanefnd tók aðra þá tillögu og gerði að breytingartillögu við bandorm sem fór hér í gegn fyrir um einu og hálfu ári þannig að hugmyndin sem Jóhanna Sigurðardóttir setti í mold fyrir 26 árum og ég vökvaði nokkru seinna var á endanum samþykkt af Alþingi sem sú breyting að ráðherrar fá ekki lengur endurgreiddan starfskostnað enda eiga skrifstofur þeirra sem heita ráðuneyti bara að standa straum af kostnaði við störf þeirra. Þetta er lítil breyting en hljóðar samt upp á 5,3 milljóna kr. sparnað á ári. Þó að þetta sé allt saman mikil naflaskoðun hjá okkur þá eru þetta upphæðir sem munar um, ekki bara vegna þess að 5,3 milljónir eru alvöruupphæð heldur líka vegna þess að þetta endurspeglar það að við umgöngumst opinbert fé af virðingu og ábyrgð.

Það á hins vegar eftir að ljúka hinum helmingi frumvarpsins sem ég lagði fram fyrir tveimur árum og Ögmundur Jónasson á eiginlega upphaflegu hugmyndina að fyrir 26 árum, sem varðar starfskostnað þingmanna sem ekki gegna embætti ráðherra. Þetta ræddi ég við hv. flutningsmann í andsvari og tel að sé full ástæða fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að skoða í tengslum við það frumvarp sem við ræðum hér vegna þess að þetta er eitthvað sem við getum mjög hæglega náð vel utan um. Starfskostnaður í dag er 480.000 kr. á ári fyrir hvern þingmann og það er talin upp heil síða af kostnaðargreiðslum sem heimilt er að endurgreiða og ég tek heils hugar undir með hv. flutningsmanni um að þetta kerfi er óþarflega flókið. En þarna held ég einmitt að gagnsæið geti hjálpað okkur. Það þarf ekki nákvæmar reglur útlistaðar á blaði til þess að skrifstofa Alþingis geti farið yfir ef starfskostnaður er einfaldlega endurgreiddur samkvæmt reikningi og reikningarnir síðan birtir. Aðhaldið sem felst í því tel ég að sé nægjanlegt til þess að afskaplega einfaldar reglur um starfskostnað myndu duga og hann gæti jafnvel lækkað í leiðinni eins og raunin varð með akstursgreiðslurnar á sínum tíma.

Til að skemmta hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem er sá eini okkar sem var þingmaður á þeim tíma þegar lög um þingfararkostnað voru samþykkt, þá get ég rifjað upp hvaða starfskostnaðargreiðslur mátti telja fram á þeim tíma þegar þær voru settar. Það voru nefnilega m.a. faxtæki. Þetta sýnir svo vel af hverju reglurnar eiga að vera einfaldari. Það þurfti að breyta reglum um endurgreiðslu starfskostnaðar þegar engum datt í hug lengur að nota faxtæki. Það á ekki að þurfa að breyta reglum um vinnuaðstæður þingmanna bara af því að það kemur nýtt tæki á markaðinn. Þær eiga að geta lagað sig að því.

Það kom fram í seinna svari hv. framsögumanns í andsvörum við mig að hann teldi sjálfur persónulega að það mætti einfalda allt þetta kerfi í kringum þingfararkaup til muna. Mig langar að lýsa mig hjartanlega sammála því. Hugmynd hv. þingmanns var að þetta væri giska þrískipt; það væri þingfararkaupið sjálft, svo væru það starfskostnaðargreiðslur sem væri skrifstofu þingsins að sjá þingmönnum fyrir nauðsynlegri aðstöðu til að sinna störfum sínum og síðan væru það álagsgreiðslur sem þingmenn fengju stöðu sinnar vegna. Þar mætti líka endurskoða dálítið forsendur álagsgreiðslna vegna þess að þær endurspegla kannski frekar virðingarröð embætta innan þingsins en endilega vinnuálag eins og þær eru settar upp í dag. Ef ég man rétt þá fær formaður stjórnmálaflokks 50% álag en formaður fastanefndar 30% álag ofan á þingfararkaupið. En ef við erum bara að skoða störf innan þingsins þá held ég að formennska í fastanefnd sé alla vega ekki minna álag en að vera formaður stjórnmálaflokks, þó að formennsku í stjórnmálaflokki fylgi kannski meira álag út í samfélagið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég hlakka bara til að takast á við þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og sé því ekkert til fyrirstöðu að við afgreiðum þetta mál nokkuð hratt og vel og þá vonandi með þeirri viðbót að þingmenn geti ekki lengur ætlast til að fá starfskostnaðargreiðslur sem launauppbót heldur verðum við að leggja fram kvittanir og þær kvittanir líta dagsins ljós ef við ætlum að fá endurgreiðslu á réttmætum starfskostnaði.