151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

umhverfismat framkvæmda og áætlana.

712. mál
[23:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Frumvarpið var unnið af starfshópi umhverfis- og auðlindaráðherra. Í starfshópnum áttu sæti, auk formannsins, Kolbeins Óttarssonar Proppés, fulltrúar frá frjálsum félagasamtökum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og Skipulagsstofnun.

Meginmarkmiðin með heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum eru aukin skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósasamningsins. Í ljósi þessara markmiða var mikil áhersla lögð á víðtækt samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila við endurskoðun laganna. Opinn fundur var haldinn áður en vinna starfshópsins hófst þar sem leitað var eftir sjónarmiðum félagasamtaka, framkvæmdaraðila, sveitarfélaga, stofnana, háskólafólks og annarra hagsmunaaðila auk þess sem kallað var eftir sjónarmiðum almennings og hagsmunaaðila í samráðsgátt. Áform um lagasetninguna og frumvarpsdrög voru einnig birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda.

Með frumvarpinu er lögð til sameining á annars vegar löggjöf um umhverfismat framkvæmda og hins vegar löggjöf um umhverfismat áætlana, í ein heildarlög. Um er að ræða gildandi lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, sem gert er ráð fyrir að falli úr gildi verði frumvarpið samþykkt. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á Evróputilskipunum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sameining löggjafarinnar felur í sér aukinn skýrleika og betri yfirsýn þar sem megininntak umhverfismats framkvæmda og áætlana er það sama auk þess sem heildstæð löggjöf um efnið er talin endurspegla samspil umhverfismats framkvæmda og áætlana.

Við gerð frumvarpsins var leitast við að bæta framsetningu löggjafarinnar með styttri og skýrari ákvæðum og skýrari kaflaskiptingu auk þess sem gert er ráð fyrir nánari útfærslu ákvæða í reglugerð. Skipaður starfshópur hafði við vinnu sína hliðsjón af greiningu Aagotar V. Óskarsdóttur lögfræðings, sem hún vann á árinu 2019 fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, á tilteknum þáttum í löggjöf Norðurlandanna og Skotlands sem fjalla um ferli mats á umhverfisáhrifum og leyfisveitinga.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um valkvætt forsamráð framkvæmdaraðila og stjórnvalda um ferli framkvæmdar til að auka gæði og skilvirkni í stjórnsýslunni. Með því er átt við vettvang fyrir framkvæmdaraðila, leyfisveitendur og Skipulagsstofnun til að fara yfir og samræma ferlið í þeim tilgangi að auka gæði og skilvirkni verkefna. Frumvarpið gerir ráð fyrir notkun rafrænnar gáttar fyrir umhverfismat, skipulagsmál og leyfisveitingar, samanber frumvarp um breytingu á skipulagslögum sem nú er til meðferðar Alþingis, 275. mál. Með rafrænni gátt má ná fram betri yfirsýn og skýrri tímalínu í einstökum málum, auðveldari samskiptum, bættu upplýsingaflæði og rekjanleika og þar með skilvirkari vinnu og tímasparnaði hjá stofnunum og framkvæmdaraðilum, samnýtingu á vinnu milli stofnana, hraðari afgreiðsluferlum og hraðari afgreiðslu mála.

Með frumvarpinu hefur málsmeðferð vegna umhverfismats framkvæmda verið einfölduð og gerð skýrari með það í huga að styrkja aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Tímapunktarnir í ferlinu þar sem almenningur getur komið að sjónarmiðum eru þeir sömu og samkvæmt núgildandi lögum en þó er gert ráð fyrir möguleika á sameiningu kynningar vegna umhverfismats framkvæmda og skipulagsáætlana. Frá skipulagsáætlun og fram að veitingu leyfis til framkvæmda á almenningur kost á að koma að samráði um umhverfismat áætlunarinnar sem gerir ráð fyrir hinni matsskyldu framkvæmd, en almenningi skal veittur sex vikna umsagnarfrestur auk þess sem unnt hefur verið að kæra ákvörðun sveitarstjórnar um gildistöku deiliskipulags til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá er gagna- og samráðsgátt ætlað að styrkja aðkomu almennings enn frekar að ferlinu með aðgengilegri upplýsingum og auknu gagnsæi. Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda og ákvörðun leyfisveitanda um leyfisveitingu eru þá einnig kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Verði frumvarpið að lögum verður málsmeðferð vegna umhverfismats framkvæmda færð nær því sem þekkist í nágrannaríkjum Íslands. Heildarferli umhverfismats er stytt frá núgildandi lögum með því að einfalda samráð um matsáætlun. Gert er ráð fyrir að í stað þess að samráðið sé tvítekið fari það fram einu sinni auk þess sem fallið er frá kröfu um frummatsskýrslu. Er það í samræmi við löggjöf nágrannaríkja. Þá leiddi samanburður á löggjöf nágrannaríkja í ljós að málsmeðferðarfrestir í íslenskum lögum eru styttri en á Norðurlöndunum og í Skotlandi. Í frumvarpinu er því lagt til að ákvæðum um tímafresti verði breytt með það að markmiði að þeir séu raunhæfari og stuðli að auknum fyrirsjáanleika.

Reglur um málskot eru einnig einfaldaðar í frumvarpinu. Lagt er til að fallið verði frá sérstökum kæruheimildum vegna athafna eða athafnaleysis í tengslum við málsmeðferð vegna umhverfismats sem talið er brjóta á þátttökuréttindum almennings. Í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og Skotland er Ísland eina landið með sérstaka kæruheimild vegna brota á þátttökuréttindum almennings. Kæruheimildin er til komin vegna rökstudds álits ESA sem taldi að íslensk lög tryggðu ekki réttinn til að bera athafnaleysi stjórnvalda varðandi mat á umhverfisáhrifum undir óháðan og óhlutdrægan dómstól eða úrskurðarnefnd. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur verið í viðræðum við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, um hugsanlegar breytingar á þessum ákvæðum. Með þessu frumvarpi eru lagðar til þær breytingar hvað þetta atriði varðar á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að bera megi brot á þátttökuréttindum almennings undir úrskurðarnefndina í tengslum við kæru á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar eða ákvörðun stjórnvalda um veitingu leyfis. Er þar með ekki verið að draga úr aðkomu almennings að því að láta reyna á athafnir og athafnaleysi, eins og sjá má af þessu.

Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdar séu bindandi gagnvart leyfisveitanda. Er það í samræmi við tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda. Bindandi skilyrði Skipulagsstofnunar gagnvart leyfisveitanda er einnig talin festa betur í sessi hlutleysi leyfisveitanda í samræmi við kröfur tilskipunarinnar. Tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda gerir kröfu um að álit um umhverfisáhrif eigi að fullu við á þeim tíma þegar leyfi fyrir framkvæmd er veitt. Núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi er veitt ef framkvæmdin hefst ekki innan 10 ára frá áliti um mat á umhverfisáhrifum. Ljóst þykir að slík ófrávíkjanleg regla getur ekki í öllum tilvikum tryggt að álit eigi að fullu við við útgáfu framkvæmdaleyfis þó svo að 10 árin séu ekki að fullu liðin. Í frumvarpinu er því að finna það nýmæli að framkvæmdaraðili eða leyfisveitandi getur óskað álits Skipulagsstofnunar á því hvort að endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar að hluta eða í heild óháð þeim tíma sem liðinn er frá gerð álitsins. Að 10 árum liðnum ber þó eftir sem áður að leita slíkrar afstöðu Skipulagsstofnunar.

Tilskipun ESB um umhverfismat framkvæmda mælir fyrir um flokk matsskyldra framkvæmda annars vegar og hins vegar flokka framkvæmda þar sem taka skal ákvörðun um matsskyldu hverju sinni, svokallaðar tilkynningarskyldar framkvæmdir. Tilskipunin veitir aðildarríkjum val um að taka ákvörðun um matsskyldu síðarnefndra framkvæmda hverju sinni, með leyfi forseta, á ensku „case by case examination“, með því að mæla fyrir um tiltekin þröskuldsgildi eða fara blandaða leið. Núgildandi löggjöf mælir nánar tiltekið fyrir um þrjá flokka framkvæmda, flokka A, B og C. Í flokk C falla tilteknar framkvæmdir óháð stærð sem skulu háðar mati eftir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar. Með þessu frumvarpi eru lagðir til endurskoðaðir framkvæmdaflokkar með skýrleika í huga til að draga úr vafatilfellum um það hvaða framkvæmdir falla undir lögin. Samhliða er fallið frá notkun C-flokks framkvæmda, þ.e. að framkvæmdir séu tilkynningarskyldar óháð stærð og staðsetningu. Vegna brottfalls C-flokks hafa þröskuldsgildi B-flokks verið endurskoðuð. Reynsla af framfylgd ákvæða núgildandi laga um framkvæmdir í C-flokki gefur til kynna, í samræmi við það að um er að ræða mjög umfangslitlar framkvæmdir, að þær séu ólíklegar til að hafa mikil umhverfisáhrif.

Í frumvarpinu eru auk þessa lagðar til breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, þar sem mælt er nánar fyrir um sameiningu skýrslugerðar og kynningar vegna umhverfismats framkvæmdar og skipulagsáætlunar. Einnig lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, vegna einfaldaðra málskotsreglna og lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, til samræmingar á hugtakanotkun samkvæmt frumvarpinu.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.