151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála.

715. mál
[13:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála að því er varðar öflun sakavottorðs. Um er að ræða lög er varða leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, íþróttir, æskulýðsstarf, lýðskóla, tónlistarskóla, náms- og starfsráðgjafa, framhaldsfræðslu og menntun og hæfni og ráðningu kennara. Með frumvarpinu er stefnt að samræmdum reglum í löggjöf um skilyrði fyrir ráðningu í störf með börnum og ungmennum.

Virðulegi forseti. Nú vík ég að efnislegu innihaldi frumvarps þess sem hér er mælt fyrir.

Með frumvarpi þessu er mælt fyrir um sams konar breytingar á öllum þeim lagabálkum sem frumvarpið tekur til. Í öllum lögum sem eru til umræðu er varða þennan lagabálk er lagt til að starfsfólk megi eftir sem áður ekki hafa hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild fyrir þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Þetta er lagt fram til samræmis við barnaverndarlög, nr. 80/2002, þannig að hafi umsækjandi verið dæmdur fyrir önnur brot skuli meta áhrif þess á hæfni viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfsins og alvarleika brotsins. Á ákvæði þetta einnig við um verktaka og undirverktaka.

Markmið frumvarpsins er að tryggja að uppfærðar upplýsingar um þessi mál liggi ávallt fyrir. Með vísan til þess er kveðið á um í frumvarpinu að sá sem fer með ráðningarvald hafi heimild til að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Til að gæta meðalhófs skal slíkt þó að hámarki gert einu sinni á ári nema fram komi upplýsingar sem gefa tilefni til frekari upplýsingaöflunar.

Virðulegi forseti. Verði þetta frumvarp að lögum verða öll ákvæði um ráðningarbann í sérlögum á sviði mennta- og menningarmála er varða börn og ungmenni samræmd og yrði mikil réttarbót í slíku, sér í lagi fyrir börn og ungmenni.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.