151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég andmæli því að verið sé að veikja hér eftirlit. Verið er að gera það markvissara og gera það betra, alveg eins og var gert með Fjármálaeftirlitið. (HVH: Það er ekkert …)Jú, allir eru sammála sem þar komu að. Allir sem koma að þessum málum eru sammála um að hér sé verið að einfalda þetta, skýra það, gera það markvissara. Rannsókn og eftirlit eru ekkert óskyldir hlutir. Þegar skatturinn fær framtalið skoðar hann það og við getum kallað það rannsókn. Þetta er auðvitað bara einn og sami hluturinn. Mál þurfa síðan oft meiri skoðun og langskilvirkast og markvissast er að það sé gert innan sama embættisins. Sérstaklega er þó tekið fram í þessu máli — kannski það eina sem ég er ósammála — eitthvað er búið til sem heitir sjálfstæði skattrannsóknarstjóra. Þetta eru skattyfirvöld, þetta er einn skattur sem á að tryggja að menn borgi réttan skatt, að álagningin sé rétt. Um það snýst þetta. Verið er að reyna að gera það þannig hér að það sé innan skattsins, gert með skýrum hætti og þeim málum sem hægt er að ljúka sé lokið þar og þau mál sem eru stærri og heyra undir hegningarlögin fari í eðlilega sakamálameðferð. Það er svo einfalt. En verið er að reyna að sá tortryggni, að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhvern veginn að draga úr eftirliti sem er fjarri lagi. Þetta er samið af öllum þeim sérfræðingum sem komu að þessum málum til að tryggja að rannsóknirnar séu markvissari, skýrari og til að tryggja að réttur borgaranna sé ekki fyrir borð borinn. Um það snýst þetta mál. Þið getið auðvitað reynt, hv. þingmenn, að gera það tortryggilegt með þessum hætti (Forseti hringir.) en það mun ekki ganga vel hjá ykkur.