151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr út í stefnu Samfylkingarinnar og hvort það sé virkilega svo að fyrst við viljum, og tökum undir með sérfræðingum sem mælt hafa með því, að skattrannsóknarstjóri ríkisins fái ákæruvald, þá séum við um leið að segja að allar eftirlitsstofnanir eigi að fá ákæruvald. Hvers lags bull er þetta, herra forseti? Auðvitað er það ekki þannig. Við í Samfylkingunni viljum efla skattrannsóknir og við viljum að skattrannsóknarstjóri fái aukin verkefni og fleiri bjargir til að vinna hratt og vel úr sínum málum. Það er þannig, og við þekkjum það vel, að nú þegar er ákveðinn tvíverknaður í kerfinu og það þarf að taka á honum. Við getum gert það með því að færa embættinu ákæruvald og þá gengur þetta hraðar fyrir sig, sem væri bara gott fyrir okkur sem skattgreiðendur en líka fyrir þá sem verið er að rannsaka, að flýta niðurstöðunni. En það er fráleitt að mínu áliti að ætla að taka á þeim bunka sem situr á borði héraðssaksóknara, taka á því vandamáli, með því að veikja embætti skattrannsóknarstjóra, rúlla því sem deild undir Skattinn og milda refsingar til þess að hægt sé að ljúka málunum fyrr.

Herra forseti. Þetta kalla ég að veikja skattrannsóknir á Íslandi. Það er verið að gera það með þessum hætti. Skattrannsóknarstjóri hefur sjálfur farið ítarlega yfir það með okkur í nefndinni og allir geta lesið umsögn hans og þess embættis. Það má líka skoða svo margar skýrslur þar sem sérfræðingar á þessu sviði (Forseti hringir.) hafa mælt með því að styrkja embættið og gefa því fleiri bjargir til þess að vinna á alvarlegum skattsvikum.