151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað hafna ég ekki öllu sem stendur í þessari umsögn og hv. þingmaður er að þvæla málin til þess að taka ekki á því sem skiptir mestu máli hér. Skattstjóri núverandi, sá einstaklingur, stóð að skýrslu ásamt tveimur öðrum sérfræðingum í skattamálum þar sem hann mælti eindregið með því að skattrannsóknir á Íslandi yrðu styrktar og embætti skattrannsóknarstjóra fengið ákæruvald þannig að það eru sannarlega tvær hliðar á þessu máli. En ég skil það vel að yfirmaðurinn sem á að fá skattrannsóknir inn til sín horfi á björtu hliðarnar, (Gripið fram í.) horfi á það sem gæti verið gott í þessum efnum. (Gripið fram í.) Samtal á milli stofnananna er gott og það hefði örugglega mátt bæta það og það má gera án þess að renna stofnununum saman. Það er auðvitað augljóst, og það sér hver maður, að þegar á að breyta ferlinu þannig að alvarleg skattalagabrot upp á tugi milljóna króna eru bara sett í eitthvert sektarferli og fara ekki í saksókn þá erum við að milda hvernig við tökum á skattalagabrotum hér á landi. Það hljóta allir að sjá. Rökin sem gefin eru í greinargerð með frumvarpinu eru að það þurfi að minnka bunkann sem liggur á borði héraðssaksóknara. Það má gera það með öðrum hætti en að veikja skattrannsóknir og gera lítið úr skattalagabrotum á Íslandi.