151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla.

Nú er það svo, virðulegur forseti, að þetta mál á sér töluverðan aðdraganda og langar mig að gera aðeins ítarlegri grein fyrir þeim aðdraganda að málinu heldur en kemur fram í nefndarálitinu sjálfu. Umræða um breytingu á lögum um skatta og gjöld til eflingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann hefur átt sér þó nokkurn aðdraganda. Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem hv. þm. Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Hv. þm. Willum Þór Þórsson kom inn á í sinni greinargerð með þingsályktunartillögunni að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra. Ekki náðist að klára afgreiðslu málsins á 143. löggjafarþingi.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Með frumvarpinu var lagt til að öll sölustarfsemi íþróttafélaga yrði undanþegin virðisaukaskatti ásamt því að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt sem greiddur væri vegna vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald íþróttamannvirkis ásamt þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með nýbyggingu, endurbyggingu eða viðhaldi þess háttar húsnæðis sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda. Þetta væri liður í því að bregðast við skorti á íþróttamannvirkjum og bæta aðstöðu. Frumvarpið náði þá til 2. umr. á 145. löggjafarþingi. Efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um málið sem lauk með nefndaráliti um að málinu yrði vísað til ríkisstjórnar. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku hv. þm. Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingar á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru hv. þingmenn Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson.

Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda. Með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld með þessu markmiði. Meðal annars er lagt til að lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest verði í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 60% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, að hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og að einstaklingum verði heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Nánari umfjöllun um efni frumvarpsins er að finna í 3. kafla greinargerðar með því.

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að tæpa á og gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til. Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 4. tölulið 4. gr. laga um tekjuskatt, sem kveður á um undanþágu frá greiðslu tekjuskatts vegna lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis í þágu samfélagslegra markmiða. Í öðrum ákvæðum frumvarpsins eru lagðar til skattalegar ívilnanir vegna lögaðila samkvæmt 4. tölulið 4. gr. og vegna þeirra sem veita slíkum félögum framlög og gjafir. Þeir skattalegu hvatar sem lagðir eru til í frumvarpinu ná því til lögaðila sem falla undir 4. tölulið 4. gr. laga um tekjuskatt.

Undanþága frá greiðslu tekjuskatts samkvæmt 4. tölulið 4. gr. laganna, með þeim breytingum sem lagðar eru til, gildir að tveimur skilyrðum uppfylltum, þ.e. að hagnaði sé einungis varið til almannaheilla og að lögaðili hafi það að eina markmið samkvæmt samþykktum sínum. Í umsögn Skattsins er bent á að ekki liggi fyrir hvort hagnaði hafi einungis verið varið til almannaheilla fyrr en við álagningu, eða um það bil tíu mánuðum eftir lok reikningsárs.

Að auki var bent á að sú undanþága sem kveðið væri á um í 4. tölulið 4. gr. tæki til atvinnurekstrarfélaga. Almennt hefðu hefðbundin líknar-, menningar- og hjálparsamtök ekki atvinnurekstur með höndum, heldur nytu þau undanþágu frá greiðslu tekjuskatts á grundvelli 5. töluliðar 4. gr. laganna.

Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða ráðuneytisins til framangreindra ábendinga Skattsins. Að höfðu samráði við Skattinn lagði ráðuneytið til að gerðar yrðu breytingar á 1. gr. frumvarpsins, sem og afleiddar breytingar á öðrum ákvæðum þess til samræmis.

Með vísan til minnisblaðs ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til þá breytingu að við 4. gr. laga um tekjuskatt bætist ný málsgrein þar sem fram komi að þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölulið 1. mgr. 2. gr., samanber 5. tölulið 4. gr. laga um tekjuskatt, og hafi með höndum þá starfsemi til almannaheilla sem fram kemur í a–g-lið 4. töluliðar 4. gr. verði undanþegnir tekjuskatti, séu þeir skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Þá er lagt til að tilgreint verði sérstaklega í töluliðnum að ákvæði VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, skuli gilda um skráningu lögaðila í almannaheillaskrána, eftir því sem við á.

Þar sem gert er ráð fyrir að þau fyrirtæki sem falli undir nýjan 9. tölulið 4. gr. laga um tekjuskatt stundi að einhverju leyti atvinnustarfsemi til fjáröflunar er lagt til að þeim verði slík starfsemi heimil innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum lögaðilans og leiða megi beint af tilgangi hans eða ef starfsemi hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu með tilliti til heildartekna lögaðilans. Sú heimild er í samræmi við 2. gr. laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019.

Til samræmis við framangreint leggur meiri hlutinn til breytingar á öðrum ákvæðum frumvarpsins, þannig að þau félög sem falli undir nýjan 9. tölulið 4. gr. tekjuskattslaga njóti þeirra ívilnana sem frumvarpið kveður á um.

Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nýr málsliður bætist við 4. tölulið 4. gr. þar sem kveðið verði á um hvaða starfsemi teljist til almannaheilla. Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram áhyggjur af því að upptalning á þeirri starfsemi sem telst til almannaheilla kynni að útiloka ýmis samtök sem starfa í þágu tiltekinna réttinda frá því að njóta þeirra ívilnana sem kveðið er á um. Kvenréttindafélag Íslands benti m.a. í umsögn sinni á að óvíst væri hvort samtök sem berðust fyrir réttindum jaðarsettra hópa í samfélaginu féllu undir hugtökin „mannúðar- og líknarstarfsemi“. Þá benda Náttúruverndarsamtök Íslands á að ekki sé ljóst hvort starfsemi náttúru- og umhverfisverndarsamtaka falli undir upptalningu b-liðar 1. gr.

Í greinargerð með frumvarpinu er tilgreint í dæmaskyni hvaða starfsemi falli undir ákvæðið. Þótt hafa beri slíka dæmatalningu til hliðsjónar við fyllingu hugtaka eins og „menningarmálastarfsemi“ eða „mannúðarstarfsemi“ ræðst það að lokum af eðli starfseminnar hvort hún teljist falla þar undir. Meiri hlutinn telur að umhverfis- og náttúruverndarsamtök stundi menningarmálastarfsemi í skilningi ákvæðisins og njóti því þeirra ívilnana sem kveðið er á um, enda uppfylli þau að öðru leyti skilyrði 9. töluliðar. Að sama skapi teljist starfsemi um bættan hag jaðarsettra hópa til mannúðarstarfsemi.

Meiri hlutinn bendir á að þær skilgreiningar sem lagt er til að verði a- og b-liður 4. töluliðar 4. gr. laga um tekjuskatt eru nokkuð almennar, enda er þeim ætlað að ná til víðs mengis lögaðila sem starfa í þágu samfélagslegra málefna. Í því ljósi telur meiri hlutinn óheppilegt að íþróttastarfsemi sé sérstaklega tilgreind í b-lið ákvæðisins. Annars vegar telur meiri hlutinn augljóst að íþróttastarfsemi falli almennt undir æskulýðs- og menningarmálastarfsemi og hins vegar kann slík tilgreining að skapa vafa að því er varðar eðlisólíka starfsemi. Leggur meiri hlutinn því til að fallið verði frá því að tilgreina það sérstaklega að íþróttastarfsemi falli undir b-lið 4. töluliðar 4. gr. laga um tekjuskatt.

Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að fjórar nýjar málsgreinar bætist við 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þar sem kveðið verði á um rétt lögaðila sem starfa til almannaheilla til endurgreiðslu 60% virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum í þeirra eigu, eða sérgreindum matshlutum þeirra.

Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt gildandi ákvæði til bráðabirgða XXXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eiga þeir lögaðilar sem fjallað er um í frumvarpinu rétt á 100% endurgreiðslu vegna þeirra verkþátta sem að framan er getið til ársloka 2021. Meiri hlutinn telur skynsamlegt að endurgreiðsluhlutfallið verði áfram 100% til 31. desember 2025 þannig að ráðrúm gefist til þess að meta áhrif þeirrar ívilnunar á starfsemina. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að endurskoðun ákvæðisins skuli fara fram fyrir lok gildistíma þess.

Meiri hlutinn leggur til að gildistaka laganna miðist við 1. nóvember 2021. Þannig gefist Skattinum svigrúm til þess að koma upp opinni almannaheillaskrá vegna þeirra lögaðila sem komi til með að falla undir 9. tölulið 4. gr. laga um tekjuskatt. Þó miðist gildistaka 8. gr. frumvarpsins áfram við 1. janúar 2022, enda gildir ákvæði til bráðabirgða XXXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, til og með 31. desember 2021.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Þórarinn Ingi Pétursson framsögumaður. Ágúst Ólafur Ágústsson og Smári McCarthy rita undir nefndarálitið með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í þingræðum.

Ég vil síðan að lokum, virðulegur forseti, koma á framfæri þökkum til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að hafa loksins komið frumvarpinu í þennan búning og við séum komin á þá leið sem við erum komin með þetta núna. Eins og ég benti á fyrr í minni ræðu þá á málið sér töluverðan aðdraganda. Það er mjög merkilegt fyrir mig, verð ég að segja, að fá að vera framsögumaður þessa máls því að það eru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því að koma því í þann farveg sem það er í dag. Ég þakka fyrir að fá að grípa inn í þetta og vil þakka sérstaklega formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Óla Birni Kárasyni, fyrir það traust að fá að taka við þessu máli.

Ég vona að menn komi til með að fjalla um þetta mál af því að það er, held ég, eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Ef við horfum til nágranna okkar á Norðurlöndum og víðar þá eru samtök og félög sem starfa í þessum geira með ýmsa skattalega hvata einnig. Þetta kemur væntanlega til með að efla og styrkja þeirra starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. En fyrst og fremst snýr þetta að félögum sem eru rekin, ef ég má sletta, virðulegi forseti, sem „non-profit“ félög. Heilt yfir er það þannig að fólk leggur mikið á sig sem starfar í þessum félögum og ég tel að með þessu frumvarpi séum við að koma verulega á móts við alla þá mikilvægu starfsemi sem þar er unnin.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.