151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[17:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek svo sannarlega undir það að ég held að hér séum við með mjög mikilvægt mál í höndunum. Ég held að það sé líka full ástæða til að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir elju hans í þessum efnum en hann leiddi einmitt þann starfshóp sem hann vísaði til áðan í ræðu sinni og var eiginlega grunnurinn að frumvarpinu. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, og kom líka fram þegar mælt var fyrir frumvarpinu á sínum tíma, að þetta er svona til að sýna ákveðið þakklæti, sýna að það skiptir máli fyrir samfélag okkar að við séum með þessi almannaheillafélög þarna úti, eða hinn svokallaða þriðja geira. Ég held að flestir landsmenn átti sig á mikilvægi þess þegar horft er til björgunarsveitanna um þessar mundir, og þess mikla þrekvirkis sem björgunarsveitir landsins hafa unnið, hvort sem er á gosstöðvunum eða í kjölfar þess illviðris sem við höfum búið við á síðustu vetrum. En það er auðvitað svo miklu meira að auki. Það eru öll íþróttafélögin og það eru öll félögin sem eru að berjast fyrir mannúðarmálum og öðru þess háttar. Ég held því að við séum hér með ofboðslega gott mál og ég er á nefndarálitinu og styð málið heils hugar.

Það er mikilvægt að átta sig á því að með starfi þessara félaga „sparast“ fé frá ríki og sveitarfélögum því ef greiða þyrfti fullt verð fyrir alla þá þjónustu sem þriðji geirinn veitir — ég veit ekki einu sinni hvort reynt hefur verið að leggja mat á það, hvaða fjárhagslega mat er þar undir, en það er gígantískt að umfangi. Ég er kannski líka að segja þetta vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum ekki alltaf upptekin af því; þessi störf þriðja geirans byggja á sjálfboðaliðum og byggja á þeirri sýn að fólk vilji leggja eitthvað af mörkum án þess endilega að fá greitt í fjármunum til baka. Þess vegna er mikilvægt að við sem þegnar í þessu þjóðfélagi tökum þátt í sjálfboðastarfi og vinnum með okkar félagasamtökum, hvort sem það eru foreldrafélög, íþróttafélög, skátar eða annað.

Að þessu sögðu langaði mig engu að síður að deila smááhyggjum sem ég hef haft þegar þessi mál hafa komið upp. Eins og kom fram í framsöguræðunni, og hv. þm. Willum Þór Þórsson kom líka inn á, hefur þetta reynst svolítið flóknara en við héldum í upphafi. Flækjustigin geta verið víða og sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður til margra ára velti ég fyrir mér samstarfi sveitarfélaga og almannaheillafélaga. Þá er ég kannski sérstaklega að horfa til íþróttafélaga en það geta líka verið fleiri félög undir; það eru vangaveltur um hver eigi að byggja yfir viðkomandi starfsemi. Er það sveitarfélagsins eða er rétt að félagasamtökin komi að þessu? Við höfum séð alls konar sambland af því í gegnum tíðina. Það má velta fyrir sér hvort þetta skref ýti frekar undir það að félögin sjálf ráðist í fjárfestingu í stað sveitarfélaganna. Það kann að vera jákvætt. Það kunna að vera góð rök fyrir því.

En ég vil segja: Það er líka rosalega mikilvægt hjá þessum almannaheillafélögum að horfa svolítið til deilihagkerfisins, ef ég má orða það með þeim hætti. Ég er með öðrum orðum að segja að ekki þurfi allir að eiga kassa utan um sína starfsemi. Það er of algengt að minni almannaheillafélög ráðist í einhvers konar uppbyggingu, fjárfestingu, og þegar allt kemur til alls var kannski ekki rétt áætlað. Þá eru einhverjir einstaklingar búnir að leggja nafn sitt undir og þá er oft komið og bankað upp á hjá sveitarfélaginu. Sveitarstjórnarmönnum er stundum jafnvel stillt upp við vegg því að þetta er jú allt mikilvæg starfsemi og mikilvægur málaflokkur sem liggur undir. Kannski tekst að rífa upp þessar ágætu byggingar en svo þegar kemur að því að horfa á rekstrarkostnaðinn þá hefur gleymst að gera ráð fyrir því í áætlunum eða eitthvað hefur breyst.

Hér talar neikvæði þingmaðurinn Bryndís Haraldsdóttir, en ég vildi samt nefna þetta. Okkur hættir nefnilega til að eiga alveg ofboðslega mikið af fjármunum bundnum í svona fasteignainnviðum sem eru jafnvel bara nýttir í örfáar klukkustundir á viku. Auðvitað myndi maður vilja sjá að félög deildu oftar aðstöðu og sveitarfélög hefðu líka tækifæri til að deila aðstöðu með alls konar félagasamtökum, t.d. skólahúsnæðinu okkar sem er með því glæsilegra, held ég, sem þekkist. Maður fer í skóla víða erlendis og þar eru ekki jafn glæsilegar og flottar byggingar og við búum við hér og þar af leiðandi er sjálfsagt að þær séu notaðar í meira mæli.

Ég vildi bara koma þessum vangaveltum mínum á framfæri undir þessari umræðu, en á sama tíma held ég að það sé mikilvægt og gott skref að hvetja fólk til að styðja við almannaheillafélög. Ég fagna því þess vegna að við séum komin á þennan stað með þetta frumvarp og náum að klára það nú á næstu vikum.