151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[17:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka félögum mínum sem talað hafa fyrir þessu máli hér. Ég ætla líka, eins og sú sem stóð hér á undan mér, að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að hafa hrint þessu máli svolítið í gang hér innan þingsins. Ég held að það sé með þetta mál eins og svo mörg önnur að þau þurfa dálítinn meðgöngutíma. Það hefur sannarlega tekið dálítinn tíma að komast að þeirri niðurstöðu sem við fjöllum um hér. Stundum þarf það bara að gerast til að niðurstaðan verði eins góð og kostur er. Ég tek undir það að hægt er að nálgast þetta í stjórnarsáttmálanum og ríkisstjórnin og fjármálaráðherra hafa, ásamt þingmönnum sem unnu undirbúningsvinnu við frumvarpið, komið málum í þann farveg sem hér er.

Maður sér það á umsögnunum hversu mikið þessu er fagnað og hversu ólík þau félög sem skila inn umsögn eru í raun og veru. Þegar við tölum um þriðja geirann eða almannaheillafélög eru björgunarsveitirnar eðli máls samkvæmt ofarlega á blaði og fleiri aðilar. Það er af því að þeir eru mjög svo sýnilegir, enda gætum við ekki án allra þessara almannaheillafélaga verið. Það voru Barnaheill, Geðhjálp, Kvenréttindafélagið, náttúruverndarsamtök og íþróttafélög og ekki síst björgunarsveitirnar sem sendu, ásamt mörgum öðrum, inn fínar og góðar umsagnir og fögnuðu þessu.

Ég ætla bara að taka undir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var að tala um með sveitarfélögin. Þetta var afskaplega góður punktur, þetta með að sameinast um aðstöðu frekar en að allir þurfi að eiga aðstöðu fyrir sig. Það er jú ekki þannig hjá þessum félögum að þau þurfi í öllum tilfellum að eiga fasteignir ein. En svo sjáum við líka og höfum haft af því fregnir, væntanlega margir þingmenn, að með samþykkt þessa frumvarps og sérstaklega þess ákvæðis sem hér er undir, sem er að endurgreiðsluhlutfallið í virðisaukaskattinum verður 100% alveg fram til 31. desember 2025, verður mörgum þeirra sem þess þurfa gert kleift að ráðast í endurnýjun, viðbyggingar eða nýbyggingar eða annað slíkt, framkvæmdir sem menn hafa ekki getað ráðist í til margra ára. Með samþykkt þessa máls verður það möguleiki og það er gríðarlega mikilvægt. Maður þekkir til víða úti á landi þar sem menn hafa beðið með að koma sér upp húsnæði, t.d. eins og björgunarsveitir sem eru þá jafn vel að sameinast með öðrum um aðstöðu.

Ég vildi því koma hér upp og fagna þessu máli. Þetta er eitt af því sem ég sem þingmaður hef fengið mörg símtöl og tölvupósta um, hvort þetta verði virkilega ekki að veruleika. Þess vegna fagna ég því að við erum komin á þennan stað. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að einstaklingar geti líka fengið frádrátt með því að leggja almannaheillafélögum lið. Ef við erum aflögufær þá er það mín skoðun að við eigum að styðja þau almannaheillafélög sem við kjósum að gera, sum kannski við mörg en aðrir við fá eins og þar stendur. En við sem erum aflögufær eigum auðvitað að gera það og þetta verður kannski enn meiri hvatning til að láta verða af því og gerir félögin enn öflugri en þau eru. Eins og ég sagði áðan held ég að við getum ekki án þessara félaga verið. Þau eru svo ótal mörg hér á landi.