151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[17:40]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég fagna því mjög hversu mikil samstaða virðist vera um framgang þessa máls. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé verið að stíga mikið gæfuspor vegna þess að skilaboðin úr þessum sal, með þessu frumvarpi, til frjálsra félagasamtaka, sem vinna að almannaheillum, hvort sem það eru íþróttafélög, björgunarsveitir, líknarfélög ýmiss konar eins og Krabbameinsfélagið, Barnaheill eða náttúruverndarsamtök, eru þessi: Við kunnum að meta það sem þið eruð að gera. Við kunnum ekki bara að meta það heldur gerum við okkur grein fyrir því hversu mikilvægt starf ykkar er og viljum hvetja almenning til að leggja okkur lið. Það eru skilaboðin úr þessum sal, til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem leggja það á sig að taka þátt í starfsemi almannaheillafélaga á ýmsum sviðum. Það er ekki ónýtt að vera hér sem þingmaður og taka þátt í að stíga slíkt gæfuspor.

Ég held að við eigum að vera nokkuð hreykin, en við eigum líka að gefa fyrirheit um að hér verði ekki látið staðar numið heldur munum við þróa þetta áfram eftir því sem reynslan gefur tilefni til. Við erum líka að segja við sjálfseignarstofnanir sem styðja við námsmenn, sem styðja við rannsóknir og þróun: Við vitum hversu mikilvægt starf ykkar er. Við vitum hversu mikilvægur Háskólasjóður er t.d. fyrir Háskóla Íslands. Þess vegna teljum við rangt að lagður sé á sérstakur fjármagnstekjuskattur og ykkar burðir til að standa undir því verkefni sem þið hafi tekið að ykkur þar með veiktir. Þetta mun efla menntun, rannsóknir og þekkingu í íslensku samfélagi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en mér þótti rétt að koma hingað upp og segja þessi fáu orð. Að lokum vil ég þakka hv. framsögumanni, Þórarni Inga Péturssyni, fyrir forystu hans í málinu. En ég get ekki stigið niður öðruvísi en að segja að ef hv. þm. Willum Þór Þórsson hefði ekki fylgt málinu eftir í nokkuð mörg ár og sýnt alveg ótrúlega þrautseigju þá værum við hugsanlega ekki á þessum stað. En þar á auðvitað hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, einnig stóran hlut.