151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

breytingar á heilbrigðisþjónustu.

[13:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það sem af er tímabilinu hafa stjórnvöld gert umtalsverðar og umdeildar breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustu. Þær breytingar eiga það sammerkt að þær hafa hoggið í þá stoð sem þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðinga, stofa og félagasamtaka hefur verið um áratugaskeið. Ég nefni dæmi um sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga en starfsemi þeirra er í uppnámi. Sömu sögu má segja um þjónustu sérfræðilækna. Nýjasta dæmið er kannski flutningur á skimun og greiningu frá Krabbameinsfélaginu til Landspítala og heilsugæslu og til Danmerkur. Síðan eru önnur og eldri dæmi sem lúta t.d. að afdrifum Karitas, hjúkrunar- og ráðgjafaþjónustu, og auðvitað liðskiptaaðgerðum sem útflutningsvöru sem var rætt hér fyrr í dag. Stjórnvöld hafa þannig fært þjónustu frá aðilum sem búa yfir sérfræðiþekkingu, reynslu og mannafla yfir til Landspítala og heilsugæslu þrátt fyrir að þessar stofnanir séu drekkhlaðnar verkefnum og a.m.k. í tilfelli Landspítala megi færa rök fyrir því að þetta flaggskip í íslenskri heilbrigðisþjónustu eigi fyrst og fremst að sinna verkefnum sem aðrir geta ekki sinnt.

Nú stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að hækkandi lífaldur íslenskrar þjóðar hefur í för með sér aukið álag á heilbrigðisþjónustuna og stóraukinn kostnað. Við vitum það af reynslu annarra þjóða og af því að ítrekað hefur verið bent á það af til þess bærum sérfræðingum. Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er því þessi: Er það skoðun hans að þær breytingar sem hafa átt sér stað á kerfi og fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu í tíð þessarar ríkisstjórnar, og ég hef að hluta til rakið hér, séu best til þess fallnar að mæta þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum? Er það skoðun hans að þörfum sjúklinga sé best mætt á þennan hátt, að við mætum kröfum um nauðsynlega nýliðun í kerfinu á þennan hátt? Og kannski það sem einna helst tengist verkefnum hæstv. fjármálaráðherra: Hefur hann sannfæringu fyrir því að það sé svona sem við nýtum best þann stóra hluta ríkisútgjalda sem fer sem betur fer í heilbrigðisþjónustuna? (Forseti hringir.) Eru stjórnvöld á réttri vegferð með breytingar á heilbrigðiskerfinu að mati hæstv. ráðherra?