151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

breytingar í heilbrigðisþjónustu.

[13:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru einhver dæmi um að við höfum reynt að leggja mat á árangur. Ég nefni skýrslu sem kom út í haust þar sem niðurstaða er, ef ég reyni að sjóða hana saman í örstuttu máli, að við höfum aukið fjármagn inn í opinbera heilbrigðiskerfið, við höfum bætt mönnun en við erum ekki að fá aukin afköst. Það er alvarlegt mál og við hljótum að þurfa að ræða það hér. Það sem við þurfum að bæta okkur í almennt, ekki síst eftir að við höfum stóraukið framlögin eins og við höfum gert á undanförnum árum, er nákvæmlega að spyrja hverju það hefur skilað. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að við sem stjórnkerfi hér saman, þing, Stjórnarráðið og þær stofnanir aðrar sem styðja okkur í þessu, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða aðrir, höfum ekki þann nauðsynlega slagkraft sem þarf til þess að fara ofan í saumana á málum og spyrja erfiðra spurninga, m.a. um það hverju aukin fjármögnun hefur skilað fólkinu í landinu. Þetta skiptir miklu máli, ekki síst í stóru kerfunum okkar eins og á sjúkrahúsunum.