151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Varðandi eftirlitsstofnanir á Íslandi þá erum við t.d. með Samkeppniseftirlitið. Í fyrsta lagi var Samkeppnisstofnun lögð niður, ákveðnir hlutir færðir yfir í Neytendastofu vegna þess að þar var óþægilegur forstjóri sem sinnti ekki alveg því hlutverki sem hann átti að sinna, ekki samkvæmt því sem pólitíkin vildi. Í öðru lagi eru þeir undirfjármagnaðir og ef þeir ætla að sinna lögbundnu starfi sínu vel þá þurfa þeir helmingi fleira starfsfólk. Samt borga þeir fyrir þetta starfsfólk með þeim sektum sem þeir fá inn þrátt fyrir að þær séu lækkaðar af pólitískt skipaðri stjórn. Hvað kostar skortur á samkeppni okkur? Það vitum við: Heilt virðisaukaskattsþrep, 24% ofan á verðið sem maður borgar fyrir vörur úti í búð, vegna skorts á samkeppni. Allt tal um að verið sé að styrkja eftirlitshlutverk ríkisins hérna, af þeim sem verið hafa við stjórn og eru við stjórn — það er hreinlega ekki innstæða fyrir því.