151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[15:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem á sér stað hérna, hún ætti kannski skilið annað og mögulega virðulegra dagskrárheiti en fundarstjórn forseta. Það kemur kannski að því. Ég held að við þurfum að kafa ofan í verklagið og auka skilning á því. Ég get tekið undir og skil pirring hæstv. ráðherra fyrir hönd undirstofnana sinna í því hvernig þetta fer í fjölmiðla, ekki hvort heldur hvernig. En ég kem hingað upp til að gera athugasemd við orðalag hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem sagði að það væri algengara en ekki, eða regla, ef ég man orðalagið hárnákvæmt, að hér leki upplýsingar. Mig langað til að opinbera það hér að ég man fleiri dæmi þess að stjórnarliðar hafi hafnað því að veita upplýsingar og borið fyrir sig trúnaði og verið gerðir afturreka með það vegna upplýsingalaga en að trúnaður hafi raunverulega verið brotinn. Þannig að spurningin er kannski hvernig við meðhöndlum þetta hugtak og það er e.t.v. í höndum allra hér að gæta þess að það sé ekki gengisfellt. Þar liggur mögulega hinn raunverulegi vandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)