151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

jarðalög.

375. mál
[17:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Landbúnaðarmál eru flókin málefni og er að mörgu að hyggja þegar kemur að lagasetningu um þau. Mig langar að fara nokkrum orðum um þau og sýna fram á flækjustig á vissan hátt. Við búum við það hér á landi að grunnauðlindir okkar eru hlutfallslega fáar miðað við margar aðrar þjóðir. Þær byggja mikið á vatni, á lífríkinu í vatni, vatni til neyslu, rennandi vatni til raforkuframleiðslu og meira að segja byggir jarðvarminn á vatni eða nýting hans. Svo eru það jarðefnin. Þau eru ákaflega fá, fyrst og fremst byggingarefni. Og þá að lokum það sem við erum í raun að fjalla um í umræðunni um landbúnað, það er auðvitað jarðvegurinn, sem er frjósamur á Íslandi en er víða annaðhvort horfinn eða illa farinn. Þannig að það sem við erum í raun og veru að ræða og setja lög um er eins konar auðlindapólitík sem snertir eina af þessum fáu grunnauðlindum landsins.

Eftir veru í umhverfis- og samgöngunefnd hef ég verið hugsi yfir umfangi laga og regluverks vegna landbúnaðar. Ég sé fyrir mér skörun við ansi mörg lög, sérstaklega þegar kemur að verndun þessarar auðlindar. Það er auðvitað mikilvægt að flokka landbúnaðarland, ræktarland, vegna þess að það er grunnur að þeirri verndun sem kallað er eftir ásamt því að við komum okkur upp einhvers konar samþykktum viðmiðunum sem hægt er að flokka eftir. Þetta verkefni er í umsjá sveitarfélaga að nokkru leyti, jafnvel verulegu leyti. Ríkisvaldið kemur þar inn, sem og sérfræðistofnanir og hagaðilarnir sjálfir, og síðan auðvitað almenningur sem þarf að hafa aðgengi að landi, jafnvel þó að það henti hugsanlega til ræktarlands eða er þegar ræktað, ég nefni bara skóga. Þannig að flokkunin er mikilvæg. Ég kem henni að á eftir.

Þessi lög snúa fyrst og fremst af verndun landbúnaðarlands og það er þarft framtak að breyta 16 ára gömlum lögum. Verið er að breyta jarðalögum nr. 81/2004 og er það gert á ýmsa vegu með þessu frumvarpi og allt gott um það að segja. Skilgreining landbúnaðar hefur verið mjög hefðbundin hjá okkur, það þarf varla að útskýra það. Við erum þá venjulega að tala um ræktun í jarðvegi, þessari mikilvægu auðlind, annaðhvort úti eða inni: Það eru þá blóm eða matvæli. Síðan hefur skógræktin komið inn síðustu áratugina. En í raun vakna spurningar við þessa hefðbundnu skilgreiningu. Það er ylrækt, þá á ég við í öðru en venjulegum jarðvegi. Það er orðin til hátækniræktun í ylrækt þar sem verið er að byggja upp háa stæður og nota næringarvökva í staðinn fyrir jarðveg. Það er ræktun annarra lífvera en jurta. Það er líka ræktun sem þarf landrými og þá gjarnan á landi sem ég myndi jafnvel kalla ræktarland. Þá á ég annars vegar við þörunga og svo fiskeldi á landi. Fiskeldi á landi hefur verið í sókn og verður áfram í sókn og þarf ekki að vísa til annars en þess sem verið hefur á döfinni í Ölfusi.

Ég spyr þá einfaldra spurninga eins og: Hvað af þessu sem ég var að tala um fellur undir landbúnað? Eigum við ekki að taka þetta á heildrænan hátt og bæta við hefðbundnu skilgreiningar og hafa þetta inni? Ég ætla að skilja svörin eftir hjá hv. þingheimi og ekki fara með þau hér.

Herra forseti. Ég nefndi lykilhugtakið flokkun áðan. Flokkun landbúnaðarlands er hluti verkefnanna sem í þessu frumvarpi felast og eru nú þegar komnar leiðbeiningar um flokkun. Það er aðallega annars vegar flokkun eftir gæðum landbúnaðarlands með lýsingarorðum, þ.e. hvort það henti vel eða illa o.s.frv. Síðan er það flokkun sem fer eftir ræktunarmöguleikum, eins konar notkunarflokkun. Mér finnst þetta vera á mjög hefðbundnum nótum. Og af því að ég leyfði mér að spyrja spurninga um annars konar landbúnað en þennan hefðbundna er líka spursmál um hvort ekki þurfi að flokka landbúnaðarland með tilliti til fleiri viðmiða. Við getum fjallað um t.d. verndargildisflokkun. Það er jú þannig að það eru ekki nema 6% af landi sem talið er ræktanlegt, það eru 600.000 hektarar. Við tölum um verndun þessa lands. En það geta verið mismunandi verndarflokkar. Það geta verið flokkar þar sem ekki þarf að vernda land gegn neins konar ræktun, engin vistkerfi sem þarf að vernda. En það getur líka verið til ræktunarland sem ber að vernda vegna vistkerfa eða vegna einhverra náttúruminja eða annars slíks. Þannig að það er alveg spursmál hvort þessi 6% þurfi ekki að flokkast að einhverju leyti með tilliti til verndargildis.

Það er líka hægt að flokka land með tilliti til hagfræðilegra viðmiða þar sem við flokkum það með tilliti til þess hvernig það hentar vegna matvæla sem við ætlum að flytja út, sem er sérstakur flokkur, útflutningsverðmæti sem eru svo nátengd nýsköpun. Það væri alveg hægt að hugsa sér slíka flokkun. Það er líka hægt að hugsa sér flokkun eftir öryggissjónarmiðum. Hvernig tryggjum við fóðuröryggi, ekki fæðuöryggi heldur fóðuröryggi? Og hvernig tryggjum við fæðuöryggi að einhverju leyti eða öllu leyti? Hvernig tryggjum við lýðheilsuöryggi, þ.e. að þetta sé holl matvara? Það er líka hægt að hugsa sér að taka tillit til þessa. Og loftslagssjónarmiðin sjálf, hæfni til kolefnisbindingar. Er það þáttur sem getur komið inn í flokkun landbúnaðarlands?

Ég nefni þetta allt hér vegna þess að þessi flokkun er grunnur að vernd, eins og ég sagði áðan. Við höfum sýnt fram á að það er hægt að breyta landi sem ekki hentar til landbúnaðar í landbúnaðarland. Það geta orðið breytingar bæði til minnkunar og stækkunar. Við vitum að þéttbýli stækkar mikið á Íslandi og þar er gengið á ræktarland. Við erum að endurheimta votlendi. Það getur líka gengið á ræktanlegt land við það. En á móti kemur að hægt er að búa til landbúnaðarland. Það sannast t.d. á Rangárvöllum í kringum Gunnarsholt þar sem búið er að breyta eyðimörk í landbúnaðarland. Það er líka niðri í Landeyjum, nálægt Landeyjahöfn, þar sem búið er að breyta landi fyrst í votlendi og síðan í gróðurlendi sem myndi henta til ræktarlands. Þannig að það er hægt að stækka þessi 6% sem teljast ræktanleg á Íslandi og annaðhvort vinna á móti minnkun eða einfaldlega stækka land og fjölga hekturunum. Ég vil endilega að það komi fram hér.

En ég ætla ekki að fjölyrða í sjálfu sér um frumvarpið sjálft. Málefni landbúnaðarins eru flókin. Það var það sem ég ætlaði að segja í þessari stuttu ræðu og var að hugsa út í það sem við getum kallað tiltekt. Tilgangur minn með því að koma hér upp er þá sá að leggja til að settur verði á laggirnar vinnuhópur á vegum fleiri en eins ráðuneytis þar sem farið er yfir skörun jarðalaga og annarra laga sem varða landbúnað, þar sem farið er yfir skörun jarðalaga og ýmissa annarra laga sem geta þess vegna varðað náttúruvernd eða eitthvað annað, og eins alls konar stefnumótun sem farið hefur fram sérstaklega meðan þessi ríkisstjórn hefur setið, skulum við segja, varðandi matvælastefnu og nýsköpunarstefnu og annað slíkt, og meta frekari lagabreytingar og lagasetningar. Við getum kallað þetta tiltekt þó að það kalli jafnvel á fleiri lög eða einföldum laga. Það er það sem ég hafði í hyggju þegar ég kom í ræðustól.

Herra forseti. Þetta er merkilegt byggðamál sem við höfum verið að ræða hérna, verndun, flokkun og nýting landbúnaðarlands. Ég ætla ekki að fjölyrða um það og ég læt koma fram að ég styð þetta frumvarp og þá vinnu sem hv. atvinnuveganefnd hefur lagt í það og lýk þar með máli mínu.