151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum.

555. mál
[18:42]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið og tek undir með honum í öllum atriðum. Hann kom inn á það í ræðu sinni að við þurfum að hafa í huga þann mun sem við upplifum í samfélaginu á efnahag, stöðu og tekjum fólks. Það hefur áhrif. Það er staðreynd að það eru tengsl á milli þessara þátta og heilsufars fólks. Við þurfum að tileinka okkur það viðhorf að þetta skipti máli fyrir okkur öll. Það sem skiptir höfuðmáli líka er þetta: Hvað gerum við sjálf? Við þurfum að auka vitund fólks og ábyrgð á eigin heilsu. Í þessari góðu tillögu kemur einmitt fram það sem Janus Guðlaugsson hefur verið að ígrunda, að við verjum langmestu fé í heilbrigðismálum til að meðhöndla sjúkdóma. Aðeins 2% fara í forvarnir, 98% fara í hitt. Það er nærumhverfið sem skiptir mestu máli, búsetuumhverfi okkar, hvernig það er úr garði gert. Þetta gerir kröfur til skipuleggjenda í samfélögum okkar.

Við höfum auðvitað gríðarlegu áhyggjur af unga fólkinu, hvernig því líður, og hv. þingmaður kom inn á mikilvægi íþróttahreyfingarinnar, sem er óumdeilt. Það er gríðarlega mikilvægt að virkja fólk til þátttöku á eigin forsendum í bæði félagsstarfi og íþróttastarfi. En hvernig er hægt að mati hv. þingmanns að virkja nærsamfélagið, (Forseti hringir.) sveitarfélögin, því þetta kostar auðvitað eitthvað? Erum við að færast nær því með t.d. þeirri samþykkt sem við gerðum í dag með fyrirgreiðslu til félaga til almannaheilla?