151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

lagasetning um sóttvarnir.

[13:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki hætt að hlusta á sérfræðinga, svo ég svari hv. þingmanni skýrt með það. Ég átti ágætisfund með téðum sóttvarnalækni nú síðast í morgun, enda erum við í nánast daglegu sambandi þegar ástandið er eins og það er núna. Í stuttu máli vil ég svara spurningunni þannig að frá því að dómur féll um að reglugerð heilbrigðisráðherra styddist ekki við lagastoð var annars vegar farið í það verkefni að skoða hvað hægt væri að gera innan gildandi lagaramma. Það er nú þegar gert með auknu eftirliti og fyrirspurnum á flugvelli. Við sjáum að verið er að nýta sóttvarnahótelið í töluvert miklum mæli af fólki sem hingað kemur og velur það sjálft vegna þess að aðstæður eru ófullnægjandi til að halda sóttkví. Hins vegar höfum við verið að skoða mögulegar lagabreytingar. Sú vinna hófst í raun og veru um leið og þessi dómur féll. En eðli máls samkvæmt vildum við leita leiða innan gildandi lagaramma fyrst. Þær ákvarðanir, eins og allar aðrar í þessum faraldri, eru til stöðugrar endurskoðunar. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að segja til um það nákvæmlega hverjar lyktir málsins verða en ég get fullvissað hv. þingmann um að (Forseti hringir.) markmið ríkisstjórnarinnar er að gera eins vel og við getum í því að kæfa niður þennan faraldur.