151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

efnahagsaðgerðir.

[13:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrirspurnina, sem kom reyndar inn á ansi mörg atriði. Ég hlýt að byrja á því að segja að það er algerlega fráleitur málflutningur að halda því fram hér í ræðustóli Alþingis að ríkisstjórnin sé að leggja til höft. Hv. þingmaður man það jafn vel og ég hvernig staðan var hér áður en landið fór í gjaldeyrishöft 2008, þegar stjórnvöld höfðu engin stjórntæki til að takast á við fjármagnsflæði milli landa önnur en stýrivexti Seðlabankans sem voru hækkaðir upp í 18%, sem var þá eina stýritækið sem hægt var að beita af því að það voru engin þjóðhagsvarúðartæki til staðar í löggjöfinni. Ég ætla að vona að hv. þingmaður vilji ekki fara aftur þangað því að ég held að það vilji enginn annar. Það er nefnilega þannig að það frumvarp sem hv. þingmaður er hér að vísa í varðandi hin meintu höft gengur út frá þeirri meginreglu að gjaldeyrisviðskipti, sem og greiðslur og fjármagnshreyfingar milli landa, séu frjáls og óheft En hins vegar má segja að hvert sem litið sé í alþjóðlegri umræðu um þau mál hafi skapast aukinn skilningur á því að nauðsynlegt sé að hafa einhvers konar tæki til að geta takmarkað fjármagnsflæði með einhverjum hætti. Þau viðhorf sem voru hér fyrir hrunið 2008 eru á undanhaldi og þess vegna skiptir ekki síst máli í litlu hagkerfi eins og okkar að hér séu tiltekin þjóðhagsvarúðartæki sem geti dregið úr hvötum til fjármagnshreyfinga sem valda alvarlegri kerfisáhættu. Og slík úrræði eru alltaf mun vægari í eðli sínu en til að mynda þau höft sem hér voru sett eftir hrunið.

Hv. þingmaður nefnir hér að lausnin á þessu sé að tengja krónuna við evru og við skulum alveg átta okkur á því hvað það hefur í för með sér og við þekkjum líka þá umræðu frá þessum tíma. Sjálf var ég í þeirri sendinefnd sem fór til Brussel og óskaði eftir því að við myndum fá einmitt að taka upp evru eða bindast föstu ástarsambandi við þann miðil án þess að ganga í Evrópusambandið og fengum þá ítrekuð neikvæð svör. En það er í raun og veru er miklu stærra mál, tel ég, (Forseti hringir.) og á ekki að fylgja neinu öðru en þeirri ákvörðun að Ísland gangi í Evrópusambandið, sem ég myndi ekki telja. Ég ætla að koma aðeins að lífeyrismálunum og tilgreindu séreigninni hér í síðara svari.