151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

efnahagsaðgerðir.

[13:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að ég svari ekki spurningum en verður að sætta sig við að því sé svarað þegar hún heldur því fram að verið sé að setja á höft. Ekki er hægt að láta slíkum rangfærslum ósvarað. Þá velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður sé að vitna til frumvarps til laga um gjaldeyrismál þar sem því hefur verið haldið fram að ætlunin sé að setja höft á lífeyrissjóðina sem muni rýra kjör lífeyrisþega. Þetta mál snýst ekki um það. Það snýst um að hér eigi að vera tæki til að nota við sérstakar, ófyrirséðar aðstæður, ekki til að beita lífeyrissjóði eða aðra almennum takmörkunum. Ef hv. þingmaður er að vísa í útreikning á verðtryggingu í öðru frumvarpi um tilgreinda séreign vil ég segja að það er annars konar mál sem ég held reyndar að snúist um stór grundvallaratriði sem varða (ÞKG: Verðlagsuppbæturnar.) verðlagsuppbæturnar og verðtryggingarútreikningana. Ekki voru settir sérstakir fyrirvarar við þau ákvæði í þingflokki Vinstri grænna en hins vegar (Forseti hringir.) teljum við mikilvægt að rætt sé mjög nákvæmlega um grundvallarbreytingu er varðar skiptingu sameignar og séreignar (Forseti hringir.) í því frumvarpi og ég ætlast til að nefndin hér í þinginu (Forseti hringir.) fari mjög ítarlega yfir þau mál.