151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

lög um fjárfestingar erlendra aðila.

[13:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Upplýsingar eru verðmæti. Heilu stórfyrirtækin vinna einungis að því að afla upplýsinga og miðla þeim. Það eru náin tengsl milli upplýsinga, þekkingar og valds. Ef allt er vitað um einstaklinga, hópa eða jafnvel heilu ríkin er auðveldara að hafa stjórn á þeim eða hafa áhrif á þau. Þegar kemur að upplýsingum eru hagsmunir af misjöfnum toga. Hagsmunir geta komið sér vel fyrir almenning og hagsmunir geta verið ógn við öryggi ríkisins. Upplýsingarnar geta í einhverjum tilfellum ráðið úrslitum um framtíð ríkja og þjóða, ýmis tryggt eða ógnað þjóðaröryggi. Það er mikilvægt að styrkja regluverk hér á landi um upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga. Það er ekki síður mikilvægt að vera vel meðvituð um hverjir eiga fyrirtækin sem safna upplýsingum. Hvar liggja t.d. mörkin á milli upplýsingaöflunar og njósna? Hvernig eru njósnir skilgreindar? Eru þær leyfilegar í einhverjum tilfellum? Hvenær er farið yfir strikið og hver eru viðurlögin?

Hér á landi eru lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Þau eru komin til ára sinna og hafa ekki verið uppfærð lengi. Þau taka mið af hefðbundnu atvinnugreinunum á Íslandi, orkunni, fiskinum og fasteignum. Á síðustu árum hefur spenna í heiminum aukist, eins og við þekkjum, og tæknibyltingin á sér svo sannarlega stað þar sem bæði tækni og upplýsingar verða sífellt mikilvægari. Lögin hafa engu að síður ekki verið uppfærð. Því sæta viðskipti með tæknifyrirtæki sem geta verið nauðsynleg fyrir öryggi Íslendinga eða fyrirtæki sem búa yfir gríðarlegu magni af upplýsingum, t.d. um Íslendinga, ekki skoðun eða takmörkunum.

Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki sé nauðsynlegt og hvort unnið sé að því að endurskoða lögin um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, ekki síst í ljósi þess sem ég nefndi hér.