151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Brynjar Níelsson geti sparað sér orð um hroka. Hann getur vissulega blossað upp en það var enginn hroki í máli mínu hér. Varðandi fyrirspurn hans um rannsókn og ákæru — já, ef ég hef eitthvað orðað það öðruvísi þá á ég að sjálfsögðu við rannsókn og ákæru en ekki sakfellingu. Ég tel mig vita muninn þar á. En við hv. þingmaður erum hreinlega ekki sammála. Við erum ekki sammála um að það frumvarp sem við ræðum hér sé til þess gert að styrkja við skattrannsóknir. Það vill svo til að skattrannsóknarstjóri er á sömu skoðun og ég og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar og sömuleiðis má lesa það í umsögnum við málið, þannig að næg eru gögnin. Eins og ég vitnaði til áðan í ræðu og finna má líka í nefndaráliti þá eru hér nokkuð sterk gögn sem styðja við þá skoðun og það er m.a. stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á ríkislögreglustjóra frá 2006 og verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu frá 2016 kemst að sömu niðurstöðu og er í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og leggur til að rannsóknir mála verði eingöngu til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra sem fái ákæruvald, til þess að það sé skýrt.