151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:18]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innleggið og að Samfylkingin stígi með þessum hætti inn í umræðuna, enda er hv. þingmaður í rauninni sá sem hefur verið hvað harðastur í að tala fyrir aðild að Evrópusambandinu. Það er alveg rétt og við tökum það sérstaklega fram í greinargerðinni með tillögunni að ákjósanlegast væri að sækja strax um aðild og tryggja þannig upptöku evru með beinni aðild að Evrópusambandinu. Í ljósi þess að við erum samt ekki komin lengra með Evrópusambandsaðild, eins sárt og það er, tel ég að við verðum bara að viðurkenna það og segja: Við þurfum að taka meiri umræðu um Evrópumálin. Við sem erum hér inni þurfum að stuðla að því, og út á það gengur m.a. næsta tillaga, að það verði meiri upplýst umræða, að við förum í það að kynna fyrir þjóðinni kosti og galla á því að fara í áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Út á það gengur sú tillaga.

Ég vil hins vegar segja að aðstæður — og ég þakka fyrir upprifjunina frá 2008 — eru bara allt aðrar í dag en þær voru 2008. Ég efast ekki um að ef einhver hefði sagt við þennan sama hóp: Bíðið við, Bretar verða komnir út úr Evrópusambandinu eftir tíu ár. Þá hefðu allir sagt: Nei. Og það er svolítið stór breyta fyrir okkur sem erum hlynnt því að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið. Við verðum að draga fram að Evrópusambandið þarf líka að taka svolítið til heima hjá sér. Ég held að það muni hjálpa okkur að sýna ákveðinn sveigjanleika og átta okkur á því að það er stærri mynd sem þarf að huga að, pólitískari mynd sem þarf að huga að nú heldur en fyrir 14 árum. Með fullri virðingu fyrir þeirri nefnd sem fór út á sínum tíma voru það ekki síst háttsettir embættismenn sem rætt var við. Ég tel að með fullum þunga verði hægt að ná árangri í þessum viðræðum. (Forseti hringir.) Maður vinnur ekki í lottóinu nema með því að spila með. Við verðum að reyna þessa leið því að hún er skjótvirkari en sú leið sem við þurfum að vanda okkur afar vel með og það er að halda áfram með aðildarviðræður að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.)

Þannig að ég segi: Sú leið (Forseti hringir.) sem við bendum á er að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá hér stöðugan gjaldmiðil með fyrirsjáanleika fyrir heimili og fyrirtæki.