151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:25]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissir þú að á síðasta ári var krónan í hópi þeirra gjaldmiðla sem veiktist hvað mest, rýrnaði mest? Þar erum við í hópi með Kirgistan, Mósambík og Georgíu. Munið að þegar krónan veikist verða innfluttar vörur dýrari og verðbólgan eykst. Við skulum ekki gleyma því að verðmæti almennings eru geymd í þessum gjaldmiðli sem rýrnar stöðugt í verði. Hann er í rauninni ekki gjaldgengur neins staðar annars staðar í heiminum. Hugsið ykkur. Hvernig stendur á því að við höfum hér stjórnvöld og stjórnmálaflokka sem skipa þessa ríkisstjórn sem vilja koma í veg fyrir að almenningur geti notið góðs af stöðugum og öruggum gjaldmiðli, lægri vöxtum og engri verðtryggingu? Á sama tíma sér ríkisstjórnin ekkert athugavert við að stórfyrirtæki og auðmenn geri mál sín upp í evrum og geymi reiðufé sitt í erlendum gjaldmiðlum.

Herra forseti. Krónan — og núna ætla ég að vera svolítið dramatískur — er í raun fyrir auðmenn en ekki almenning. Þess vegna skil ég ekki af hverju þunginn er ekki meiri hvað þetta varðar. Fólk hefur áhuga á fullveldinu — ég ætla að nota lokaorð mín í þetta — en fullveldi Íslands er ekki í hættu með aðild landsins að Evrópusambandinu. Telur fólk að Frakkland sé ekki fullvalda ríki eða Danmörk? Þetta eru að sjálfsögðu fullvalda ríki. Við treystum fullveldi okkar með samstarfi. Telur fólk Norður-Kóreu vera mest fullvalda ríki í heimi? Hvers lags bull er þetta, herra forseti? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við þurfum að tryggja fullveldi okkar með aðild að Evrópusambandinu þar sem helstu viðskiptahagsmunir, siðferðilegir hagsmunir og menningarlegir hagsmunir okkar liggja. Um það snýst þetta og um það erum við hv. þingmaður sammála, herra forseti.

Þess vegna þurfum við að taka þessa umræðu. Þess vegna eigum að fara af fullum krafti í að sannfæra þjóðina um að þetta sé rétt leið. Ég ítreka að það er ekki tilviljun að okkar helstu samstarfsþjóðir, sem við eigum svo margt sameiginlegt með, telja hagsmunum sínum miklu betur borgið innan Evrópusambandsins heldur fyrir utan það.