151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[13:09]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það er rétt að við sem erum formenn nefnda höfum dagskrárvaldið, en það er samt sem áður ekki alræðisvald. Það verður að bregðast við og það segir að mál skuli fara á dagskrá. Ef ég heyrði rétt hjá formanni atvinnuveganefndar á málið að fara á dagskrá en þó innan einhvers ramma. Sá rammi er að ef þrír nefndarmenn óska eftir því skal mál fara á dagskrá innan þriggja daga. Þegar framsögumaður óskar þess eru það vanalega einn til tveir fundir. Svo er búið að teygja svolítið á þessu núna. Eftir að hafa hlustað á þessa umræðu, hlustað á framsögumann málsins sem er búinn að krefjast þess að málið fari á dagskrá, og hv. nefndarformann, sem er búinn að segja að það muni fara á dagskrá, eigi að fara á dagskrá, trúi ég ekki öðru en að lending náist í þessum máli, að það komist á dagskrá, ef ekki á næsta fundi þá á þeim þarnæsta. Það þarf bara að klára þessa umræðu um nefndarálitið og fara svo í atkvæðagreiðsluna.