151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í reglugerð segir, með leyfi forseta:

„Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.“

Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, sem kallaði eftir þessari umræðu, veltir því upp hvort þetta sé bara hugmyndafræði og ekki framkvæmanlegt. Ég er á þeirri skoðun að þetta sé falleg og mikil hugmyndafræði. Hún er framkvæmanleg en til að framkvæma hana þurfum við að horfa til einstaklingsmiðaðs náms. Ef skólarnir eiga að taka á móti öllum með ólíkar þarfir verða kennarar og starfsfólk að hafa svigrúm til að sinna hverjum og einum einstaklingi út frá hæfni sinni.

Hæstv. ráðherra kom áðan inn á snemmbæran stuðning og mikilvægi hans. Mig langar að taka þann punkt aðeins lengra. Ég held að við höfum á síðustu árum lagt of mikla áherslu á greiningar á alls konar færni, hæfni eða heftri getu að einhverju leyti. En við vitum kannski ekki alveg hvað við eigum að gera við allar þessar greiningar. Þess vegna held ég að það skref að veita stuðninginn samfara greiningunni skipti okkur mjög miklu máli.

Virðulegur forseti. Ég verð líka að nota tækifærið, þar sem við erum að ræða svolítið um grunnskólana almennt, og nefna lesturinn. Mér finnst skjóta ótrúlega skökku við að árið 2021 séum við enn að horfa til hraðlestrar og mæla lestrarkunnáttu barna út frá fjölda atkvæða á mínútu þegar við vitum að stóra málið er lesskilningur barnanna okkar, að þau geti lesið sér bæði til gagns og gamans.

Virðulegur forseti. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að við breytum þessum viðmiðum (Forseti hringir.) og horfum á lesskilning en ekki leshraða.