151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Málshefjandi vék að PISA-prófunum í framsögu sinni. Mér heyrist við ekki vera sammála um gildi þeirra vegna þess að ég held að við ættum miklu frekar að velta því upp hvort stjórnvöld hafi undanfarin misseri lagt of mikla áherslu á mælanlegan námsárangur, hvort sem er í gegnum samræmd próf eða PISA-kannanirnar, en vanrækt á sama tíma aðra þætti sem eru skólasamfélaginu mikilvægir. Það er nefnilega oft þannig að líðan nemendanna þarf að vera í forgrunni og þá getur hefðbundinn námsárangur þurft að mæta afgangi.

Sjáum fyrir okkur nemanda þar sem foreldrar, nemandi og kennarar eru sammála um að það skipti mestu að viðkomandi útskrifist með gott sjálfstraust og góðar minningar. Þá þarf einfaldlega að sveigja frá hefðbundnu námi til að ná þeim markmiðum. En það passar ekki inn í kassann sem PISA og samræmdu prófin setja kerfinu.

Það er mikilvægt að við tökum umræðu um það hvort skóli án aðgreiningar sé bara stefnuyfirlýsing eða raunverulegt markmið fyrir menntakerfið og þá sérstaklega hvernig ráðuneytin geti tryggt að hugmyndafræðin nái fram að ganga án þess að yfirkeyra kennara og annað starfsfólk. Það getur nefnilega verið snúið fyrir skólakerfið að setja þarfir hvers og eins nemanda í forgrunn, hvort sem þau eru taugsegin, fötluð eða falla bara einfaldlega ekki inn í normið. En með því að gera það þá byggjum við upp skólakerfi sem er fyrir öll. Til þess þarf samvinnu, það þarf fjármagn, það þarf að hlusta á þau sem vinna í skólunum og það þarf að vera sveigjanleg frekar en að troða öllum í sama kassann.