151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við mættum enn oftar ræða menntun og málefni henni tengd, bæði í almennri pólitík og í þjóðmálaumræðunni. Hagsmunirnir að baki og mikilvægið um alla framtíð er um fáa málaflokka jafn augljóst.

Skóli án aðgreiningar er í mínum huga mikilvæg stefna og svarið við því hvort hún sé framkvæmanleg er já. Leiðarstefið er: Jafn réttur allra til menntunar á eigin forsendum. Ég velti því hins vegar stundum fyrir mér hvernig stefnan um skóla án aðgreiningar rímar í öllum tilvikum við stefnu stjórnvalda að þessu leyti, og ég átta mig vitaskuld því að það er flókið og vandasamt viðfangsefni. En rammi skólastarfs í dag miðast t.d. við viðmiðunarstundaskrá. Við þekkjum hvað það þýðir, það eru fyrir fram ákveðið margir tímar í hverju fagi fyrir sig, sem þýðir í reynd að stefnan er í grófum dráttum að eitt eigi yfir alla að ganga.

Fram undan eru breytingar á þessari stundaskrá og ég veit til þess að eitthvað er um að kennarar hafi áhyggjur af því að með þeim breytingum verði sveigjanleikinn í kerfinu minni en í dag og frelsi og svigrúm skólanna minna til að útfæra skipulag skólastarfsins. En þegar við tölum um skóla án aðgreiningar hlýtur okkur að vera ljóst að hver nemandi er einstakur og hefur sínar þarfir. Þess vegna þurfa skólarnir svigrúm, og jafnvel aukið svigrúm að þessu leyti, og frelsi til að skipuleggja skólastarfið til að mæta þörfum ólíkra nemenda. Skólakerfið má ekki vera svo þungt í vöfum að skólarnir nái ekki bregðast við mismunandi þörfum einstaklinganna. Það verður vitaskuld að vera hægt að mæla stöðu og árangur og við þurfum viðmið og kvarða þannig að þetta er alltaf einhver jafnvægislist á milli þess að smíða ramma og að smíða sveigjanleika. (Forseti hringir.)

En ég velti því fyrir mér núna, með breytingum á viðmiðunarstundaskrá skólanna, þegar umgjörðin verður enn þá fastari en nú er, hvort það sé besta leiðin til að ná fram hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar.