151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

kostnaður og ábati af Covid-aðgerðum.

[13:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kannski er tímabært að beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem heyrir beint undir hans svið. Það liggur við að maður velti fyrir sér: Hver hefur raunverulegur ábati orðið af því að vera búin að taka í fangið þrjár bylgjur af þessum andstyggðarfaraldri með öllum þeim hörmungum sem hafa fylgt í kjölfarið? Hvaða ábati hefur verið af því? Hvernig er hægt að réttlæta meðalhóf þegar stór hluti þjóðarinnar er í rauninni búinn að vera hnepptur í fjötra frá því að þessi andstyggðarfaraldur hóf göngu sína? Það er löngu orðið tímabært að við fáum að sjá kostnaðinn af því að standa í landamæraskimunum og öllum þeim aðgerðum sem eru til þess fallnar að reyna að taka á móti örfáum ferðamönnum sem eiga að bjarga 10% hagkerfisins sem í raun og veru mega og eiga að vera á ís fyrir þau tæplega 90% sem við höfum getað haldið gangandi sjálf. Er það ekki satt, hæstv. fjármálaráðherra, að engin hagspá gerði ráð fyrir því, miðað við ástandið í fyrrasumar, að við myndum koma eins vel út og raunin varð á með okkar einkaneyslu og styðja eins vel við hagkerfið sjálf? Ég velti því fyrir mér núna þegar talað er um herðingu á landamærum, sem eru þannig herðingar að nánast er ómögulegt að þær nái yfir nokkurn skapaðan hlut: Hvaða þrýstingur er það, hæstv. fjármálaráðherra, sem ríkisstjórnin er að láta undan? Hvar er meðalhófið? Gildir það ekki um samlanda hæstv. fjármálaráðherra? Svo er annað og það er náttúrlega þverlega ekki á hans sviði en hvers vegna er núna verið að kasta fram gjörbreyttri sýn á virði bólusetninga? Allt í einu á bara að opna hér allt þegar búið er að veita fyrri bólusetningu. Maður er í raun algerlega, ef ég á að segja það á góðri íslensku, kjaftstopp.