151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

kostnaður við hertar sóttvarnaaðgerðir.

[13:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við vitum öll að það sem er á vogarskálunum hjá okkur núna eru hertar sóttvarnir á landamærum eða hertar sóttvarnir innan lands. Öðrum hvorum megin þarf að herða. Það vitum við. Við vitum hvað það kostar í lífum að fá bylgju yfir okkur eftir því hvað margir smitast og bylgjan fer upp. Við vitum hvað það kostar í skertum réttindum. Það hefur komið skýrt fram hvað það kostar í skertum réttindum þegar við náum ekki tökum á bylgjunni og hún fer upp, það þarf alltaf að herða á sóttvörnum innan lands. Við vitum það.

Mig langar að biðja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að fara yfir eftirfarandi með okkur: Hvað kostar þetta í peningum? Hvað kostar þetta ríkissjóð? Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur farið í til þess að létta undir með atvinnulífinu og heimilunum byggja á einhverjum forsendum um það hver skaðinn er fyrir fyrirtækin og fjölskyldur í landinu þannig að eitthvað hefur hæstv. fjármálaráðherra skoðað hvað þetta kostar. Hvað kostar þetta samfélagið, bæði heimilin, fyrirtækin og svo ríkissjóð? Sumir heyra best þegar hlutirnir eru settir fram í krónum, settir fram í peningum. Ég vil biðja hæstv. ráðherra um það.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá stöndum við frammi fyrir því núna að það þarf að herða sóttvarnir á landamærum ef við ætlum ekki að þurfa að herða sóttvarnir innan lands. Það er staðreynd. Það er betra fyrir líf og heilsu landsmanna að herða þær á landamærum en innan lands. Það er betra fyrir borgararéttindi, athafnafrelsi okkar og réttindi til mennta og atvinnu að herða á landamærum frekar en innan lands. Í því sem The Wall Street Journal tók saman um áhrif á efnahagslíf þjóða þá kom Svíþjóð verr út en Danmörk, Noregur og Nýja- Sjáland, þannig að við vitum að það er líka efnahagslega betra. Ég vil biðja hæstv. fjármálaráðherra um að taka það saman fyrir okkur hvað það kostar í peningum að fá aðra bylgju yfir okkar hér innan lands.