151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

hertar aðgerðir og markaðssetning Íslands.

[13:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ferðamálaráðherra fyrir svarið. Ég skil það þannig að Icelandair njóti þá ekki neinna fjármuna frá íslenska ríkinu til að auglýsa þarna og að Íslandsstofa sé ekki í sérstakri markaðsherferð erlendis til að laða að erlenda ferðamenn á þessari stundu. Ég kýs að skilja það þannig. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá ef það er ekki rétt. Nú er það einu sinni þannig að vel heppnaðar markaðsherferðir leiða til þess að áhugi eykst. Vonandi er tilgangur herferðarinnar að ferðamenn streymi hingað til lands í hundruðþúsundatali. Þá er spurningin um innviðina og hvernig þeir geta tekið við. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess hvernig menn ætla að taka sýni úr öllum þessum ferðamönnum, hvernig menn ætla að halda þeim við sóttkví í sex klukkutíma og hvernig menn ætla að halda því til streitu að þeir komist ekki út í samfélagið, því að dæmin sanna að jafnvel bólusett fólk getur borið með sér veiruna og dreift henni. (Forseti hringir.) Þess vegna er stórhætta á að smit dreifist eftir því sem ferðamönnum fjölgar. (Forseti hringir.) Er búið að hugsa það allt til enda? Ég vil gjarnan fá svör við því.