151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[14:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, og lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Frumvarp þetta er samið í heilbrigðisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu og lagt til sem hluti af þeim aðgerðum sem taldar eru nauðsynlegar í baráttunni við heimsfaraldur SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

Áður en lengra er haldið í framsögu minni um þetta mál langar mig til að þakka Alþingi fyrir samstöðuna sem ríkt hefur um aðgerðir vegna Covid-19 vegna þess að það er ekki sjálfgefið í samfélagi eins og okkar, sem er opið og öflugt og þar sem lýðræðishefð er mikil, þar sem umræðan er óheft, að það ríki svo mikil eindrægni í samfélaginu. Sem betur fer hefur það einkennt umræðuna, bæði innan þings og utan, að að öllum jafnaði hefur það heyrt til algerra undantekninga að veiran sé gerð að pólitísku bitbeini. Ég held að það megi segja að það hafi verið reglan alveg fyrstu tíu, tólf mánuðina að sú hafi verið raunin. En það hefur borið aðeins meira á því núna að undanförnu og þá kannski fyrst og fremst í kringum áramótin þegar rætt var um bólusetningar og fólk hafði áhyggjur af kaupum á bóluefni, og svo núna þegar við ræðum ráðstafanir vegna mögulegra smita um landamæri. Ég held að það sé samspil ýmissa þátta að þessi umræða kemur upp með þessu móti núna, kannski fyrst og fremst vegna þess að komin er mikil óþreyja í samfélaginu eftir því að þessu fari að ljúka, enda sjáum við loksins fram á endasprettinn í þessu ati. Og þó að ekkert okkar hafi órað fyrir því í apríl í fyrra að við yrðum stödd hér nú að því er varðar sóttvarnaráðstafanir, að hámarksfjöldi sem geti hist séu 20 manns o.s.frv., þá held ég jafnframt að ekkert okkar hafi órað fyrir því að við værum komin svo langt með bólusetningar og raun ber vitni. Auðvitað hefur framvindan í bólusetningum mjög mikil áhrif á sóttvarnaráðstafanir innan lands, líka sóttvarnaráðstafanir á landamærum, vegna þess að eftir því sem bólusetningu vindur fram, þeim mun betur erum við varin. Og þegar ég segi við þá á ég við þá hópa sem líklegri eru en aðrir til að verða fyrir alvarlegum veikindum.

Umræðan undanfarna daga og vikur hefur eðli máls samkvæmt snúist fyrst og fremst um nauðsyn þess að geta takmarkað betur að Covid-19 smit berist til landsins. Sóttvarnalæknir hefur m.a. lýst því yfir að hann telji nauðsynlegt að stjórnvöld skjóti frekari lagastoð undir þær opinberu sóttvarnaaðgerðir sem hann hefur lagt til, þar með talið þá tillögu að skylda einstaklinga til að sæta sóttkví í sóttvarnahúsi við komu til landsins. Markmiðið með því frumvarpi sem hér hefur verið veitt afbrigði til að ræða á Alþingi í dag er að skjóta þessari skýru lagastoð undir tiltekna ráðstöfun sem er afmörkuð í tíma, og í raun og veru líka afmörkuð í inntaki þessarar ráðstöfunar. Að því leyti til er frumvarpið algerlega markað af og merkt þeirri stöðu sem uppi er núna í glímunni við faraldurinn og af þeim sökum er ákvæðið sett fram sem bráðabirgðaákvæði. Jafnhliða er verið að huga að heildarendurskoðun sóttvarnalaga sem við sjáum vonandi líta dagsins ljós á næsta þingi, væntanlega bak kosningum, þar sem við getum með nesti frá reynslunni af glímunni við þennan tiltekna faraldur haft skýrari sýn en áður á það hvers konar lagaumgjörð þarf að vera fyrir hendi til að við höfum þau verkfæri sem þarf. Við fórum í töluverða endurskoðun á sóttvarnalögum að sumu leyti í vetur sem leið, eða fyrr á þessu þingi, en þó ekki þannig að horft væri til lagaumhverfisins alls. Alþingi tók það mál til umfjöllunar og það var afgreitt á Alþingi.

Þetta frumvarp er til þess hugsað að skjóta lagastoð undir þá ráðstöfun að skylda ferðamenn sem koma frá tilteknum svæðum til dvalar í sóttvarnahúsi, óháð því hvort þeir geti dvalið í húsnæði á eigin vegum eða ekki. Þannig er staðan núna á grundvelli gildandi laga að allir þurfi að gera grein fyrir því að þeir uppfylli tiltekin skilyrði um heimasóttkví en þurfi ella að vera í sóttvarnahúsi.

Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar eru tvö bráðabirgðaákvæði. Í því fyrra er lagt til að ráðherra verði gert heimilt að setja reglugerð en þó alltaf að tillögu sóttvarnalæknis. Tillagan er um að skylda ferðamenn sem koma frá hááhættusvæði að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Það er mikilvægt að átta sig á því að það sem við erum að gera núna með þessum lögum er að setja tímabundna heimild til að ráðherra geti gefið út reglugerð, þó alltaf að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, þetta þurfi alltaf að spila saman. Það má því segja að frumvarpið sé óvenjulegt að því leytinu til að við erum ekki að tala um víðtækar, almennar heimildir heldur afmarkaðar og tímabundnar. Það finnst mér eðlilegt í ljósi þess að það liggur á að afgreiða málið vegna þess að við þurfum og viljum koma í veg fyrir þau smit sem koma um landamæri eins og nokkurs er kostur eins og segir í greinargerðinni.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að hááhættusvæði verði skilgreint út frá 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa. Þetta er einn mælikvarði af mörgum sem notast er við, en þetta er sá mælikvarði sem notast er við í Evrópu. Sóttvarnastofnun Evrópu gefur út kort einu sinni í viku, á fimmtudögum, þannig að við bíðum spennt eftir því hvernig kortið lítur út á morgun. En eins og við munum þá er Ísland eina græna landið núna á þessu korti þó að við höfum dottið í gult á tímabili þegar hópsmitin fóru að gera vart við sig. Sem dæmi væri hægt að miða við að 14 daga nýgengi á hverja 100.000 íbúa sé yfir 750. Það kann að vera rétt að velferðarnefnd taki til skoðunar hvort þau viðmið sem tekin eru sem dæmi í greinargerð verði tekin beint upp í lagaákvæðið og ég tel rétt að Alþingi komi frekar að þeirri ákvörðun og þeirri spurningu. Ég held að hvort tveggja gangi upp, en spurningin sé í raun og veru hversu afgerandi Alþingi kýs að ákvæðið sé.

Jafnframt er markmið frumvarpsins, og það er í síðara ákvæðinu, bráðabirgðaákvæði um breytingu á lögum um útlendinga, að veita dómsmálaráðherra skýra heimild að lögum til að takmarka ferðalög hingað til lands frá þessum sömu svæðum nema í brýnum erindagerðum, eins og lagt er til í 2. gr. frumvarpsins. Sömu sjónarmið um hááhættusvæði og viðmið um nýgengi kunna að eiga við í þessu ákvæði frumvarpsins og ég nefndi áður. Ég held að það sé skynsamlegt að nefndin skoði það sérstaklega og ég geri ráð fyrir því að mitt ráðuneyti sé reiðubúið til að ræða þau álitamál.

Nú kynni einhver að spyrja: Bíddu, hvað er eiginlega í gangi og hverju er verið að breyta? Hvað er það í raun sem verið er að leggja til? Við þurfum auðvitað að gæta mjög vel að því í hverju skrefi í þessum faraldri að láta ekki kappið bera okkur ofurliði. Við erum núna stödd þar að það eru afar fáir á sjúkrahúsi. Það eru mjög fáir alvarlega veikir. Við erum komin mjög vel af stað með bólusetningar. Þessi vika er sennilega metvika í bólusetningum og sú næsta þegar enn þá fleiri verða bólusettir. Horfi maður utan frá á faraldurinn og framgang hans þá held ég að okkur sé óhætt að segja að staðan sé núna betri en hún hefur nokkru sinni verið. Þess vegna þurfum við að fara af varfærni í allar ákvarðanir sem lúta að því að hindra fólk í sínu daglega lífi eða svipta það frelsi sínu á einhvern hátt. Við þurfum að hafa fyrir því málefnaleg rök út frá faraldrinum í heild en ekki síður út frá almennum sjónarmiðum um meðalhóf.

Hvort sem farin verður sú leið í þessu frumvarpi að setja þessi viðmið í lagatextann sjálfan eða í greinargerð, eins og hér er gert, þá værum við í raun og veru að tala um að línan væri dregin í gegnum það að yfir línunni næðum við utan um þann hóp þar sem fleiri en 750 hafa smitast á síðustu 14 dögum miðað við 100.000 íbúa. Fyrir neðan 750 manna markið erum við með sama fyrirkomulag og núna, sem er það fyrirkomulag að allir þurfa að gera grein fyrir því að þeir geti uppfyllt tiltekin skilyrði til að geta verið í heimasóttkví, ella þurfi þeir að fara á sóttkvíarhótel eða í sóttvarnahús. Yfir þessum 750 er fólk skyldað til að vera í sóttvarnahúsi. Þó geti fólk sótt um undanþágu frá því með tveggja daga fyrirvara að uppfylltum þremur skilyrðum. Fyrsta skilyrðið er um að smitin séu ekki fleiri en 1.000 á viðkomandi svæði, en þá gerist það sjálfkrafa að ekki kemur til álita að gefa undanþágu. Númer tvö er að viðkomandi geri grein fyrir því að hann hafi viðunandi stað til að vera á og geti sýnt fram á að hann eða hún ætli að dvelja þar í sóttkví. Þetta eru tilteknar takmarkanir og meginreglan er skylda til að vera í sóttkvíarhúsi. Ég veit að þingið tekur eftir því að hér erum við ekki að tala um þessa almennu heimild sem gæti gilt við ýmsar kringumstæður, heldur erum við að tala um heimild sem við viljum að gildi nákvæmlega við þessar kringumstæður á þeim tiltekna tíma sem hér er til umræðu.

Reynslan af Covid-faraldrinum sýnir, og það eru fræði sem við höfum lært, ekki vegna þess að okkur hefur langað til þess heldur vegna þess að það hefur verið hluti af okkar daglegu tilveru um misseraskeið, að það nægir að einn einstaklingur virði ekki reglur um sóttkví eftir komu til landsins til að hrinda af stað stórri hópsýkingu og jafnvel nýrri bylgju. Alls hafa 118 mál komið til kasta lögreglu vegna brota á sóttkví og einangrun frá því að faraldurinn braust út, þar af 24 slík brot á þessu ári. Öll þessi mál tengjast landamærum. Samkvæmt upplýsingum frá smitrakningarteymi sóttvarnalæknis og almannavarna greindust á tímabilinu 1. febrúar til 1. apríl síðastliðinn 202 virk Covid-19 smit á Íslandi. Af þeim greindust 105 á landamærum og 97 innan lands. Rakningin á þessum smitum hefur leitt í ljós að öll Covid-19 smitin á þessu tímabili má rekja til smita frá landamærum með einum eða öðrum hætti. Með hliðsjón af þessu er talið rétt að bregðast við smitum sem berast inn í samfélagið frá landamærum með þeirri lagasetningu sem hér er rædd þar sem núgildandi ráðstafanir á landamærum eru ekki taldar duga til að hefta útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Í því skyni að draga úr líkum á því að smit berist til landsins við landamærin er talið nauðsynlegt að takmarka sérstaklega ferðalög hingað til lands frá svæðum sem skilgreind eru hááhættusvæði. Með frumvarpinu er dómsmálaráðherra því falin heimild til að setja reglugerð sem bannar útlendingum sem dvalið hafa á slíkum svæðum að koma til landsins. Heimilt verður að gera undanþágur vegna búsetu hér á landi og vegna brýnna erindagjörða. Með beitingu þessa úrræðis er því ekki aðeins unnt að minnka líkur á smiti innan lands heldur jafnframt að draga úr álagi á landamærum og í sóttvarnahúsum.

Það er von mín að með afgreiðslu þessa frumvarps náum við utan um þann vanda sem okkur er á höndum. En ég vil um leið segja að þær ráðstafanir sem við höfum hingað til beitt á landamærum eru þannig að horft er til þeirra um lönd og álfur, þ.e. að krefjast neikvæðs PCR-prófs, að prófa fyrir Covid-19 tvisvar með fimm daga sóttkví á milli, að nota sóttvarnahús, eins og við höfum verið að gera núna frá því í byrjun mánaðarins, að auka eftirlit eins og nokkurs er kostur. En stóra málið, og það sem hefur forðað okkur frá því í íslensku samfélagi að beita mjög hörðum heildstæðum aðgerðum, er sú staðreynd að við erum með mjög öfluga smitrakningu, og þar held ég að séu margir sem eiga fálkaorðu skilið, og ekki síður sú öfluga rakning sem átt hefur sér stað á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Þetta eru verkfæri sem hvergi er verið að nota í eins ríkum mæli og á Íslandi. Þess vegna getum við haldið í okkur með að beita mjög hörðum aðgerðum innan lands, sem hefur verið mjög mikilvægt.

Mín von stendur til þess að við þurfum ekki aftur að halda blaðamannafund um að við ætlum að snúa bökum saman í þrjár vikur í viðbót, að við ætlum að halda áfram að herða, að við ætlum að taka síðasta slaginn enn eina ferðina. Mín von stendur til þess að með því að gera þær ráðstafanir sem hér eru lagðar til, með því að halda áfram í þeim góða gangi í bólusetningu sem við sjáum, þá séum við einfaldlega farin að horfa til þess tíma að samfélagið fari að virka hér eins og við þekkjum það best og að við getum aflétt öllum sóttvarnaráðstöfunum innan lands ekki síðar en um mitt sumar.