151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[17:18]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér eitt púsl af mörgum í baráttu okkar við Covid-faraldurinn. Já, ég segi eitt púsl af mörgum. Sú reglugerð og sú lagastoð sem hefur verið til umræðu hér undanfarnar vikur mun kannski ekki leysa öll vandamálin þó að hún komi til. Ég vil þó segja að þessar tvær vikur hafa verið nýttar vel og gengið hefur vel að undirbúa málin að því leytinu til að sett var önnur reglugerð sem hefur ekki verið véfengd. Ekkert hefur bent til annars en að málin hafi gengið þokkalega eftir að sú reglugerð var sett. Núna þegar lagafrumvarpið er komið fylgir meiri heildarmynd. Það er búið að undirbúa málið betur. Það er búið að safna frekari upplýsingum og gera plan fram í tímann. Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að þegar við erum að ræða hvert púsl fyrir sig séum við með heildarmyndina fyrir framan okkur um það hvernig við ætlum að sigrast á veirunni, að við treystum ekki um of á eitt atriði umfram annað. Það þarf að skoða þetta allt í samhengi.

Það er svo mikilvægt að vita hvert markmiðið er til að vita hvort aðgerðirnar séu raunhæfar og til að leggja mat á hversu raunhæft er að aðgerðinar nái markmiðum sínum. Þá þurfum við að vita: Hver er þörfin? Hvert er vandamálið? Hvernig ætlum við að reyna að leysa vandamál? Hversu líklegt er að við náum árangri með þessum lausnum? Og eins og ég kom inn á áðan: Hvert er markmiðið? Markmiðið er, eins og kom fram í gær, að komast á þann stað að við getum aflétt öllum takmörkunum innan lands. Nú er komið plan um það. Komin er áætlun um hvernig gengur að bólusetja, hvaða bólusetningum við ætlum að taka mark á og að við segjum að þegar búið er að bólusetja fyrri skammt og vissan aldur og vissa hópa sé hægt að gera þetta. Það hjálpar allt til við að sjá eitthvert ljós handan ganganna. Það eru einhver markmið og við ræðum núna planið um hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum. Við höfum líka sagt að þær aðgerðir sem við höfum farið af stað með þýða eitthvað. Það þýðir eitthvað að hafa bólusett fólk. Við erum að fá eitthvað fyrir takmarkanir á lífi fólks innan lands sem og á landamærum og annað sem hefur verið gert hér.

Ef ég kem aftur að frumvarpinu er stór munur á því og þeirri reglugerð sem var dæmd ólögleg. Búið er að afmarka hópana betur. Búið er að áhættugreina frumvarpið frekar og reynt hefur verið að draga eins mikið og hægt er úr áhrifunum sem það hefur á allan þennan fjölda. Reynt hefur verið að leita leiða til að gæta betur meðalhófs. Svo munum við í hv. velferðarnefnd náttúrlega ræða hér síðar í dag hvort nóg sé að gert. Ég ætla ekkert að fullyrða um það en alla vega lítur þetta mun betur út en fyrri áætlanir.

Að lokum vil ég bara segja að framkvæmdin skiptir öllu máli, að þetta sé rétt framkvæmt. Þá verðum við að hafa í huga að nógu erfitt er það fyrir okkur sem höfum alist upp og búið alla okkar tíð í þessu landi, erum með íslensku sem móðurmál og höfum alist upp í þessum menningarheimi, að átta okkur á upplýsingum og aðgerðum sem snúast um Covid. Við þurfum að passa upp á að við séum að koma réttum skilaboðum, réttum upplýsingum til fólks sem er alið upp í öðrum menningarheimum með önnur tungumál og kemur úr allt öðrum aðstæðum en við þekkjum. Við þurfum að ganga úr skugga um að það sé allt saman rétt gert þannig að allir stefni í sömu átt.

Svo þarf að hafa virkt eftirlit. Það þarf að vera virkt eftirlit og hnitmiðað. Oft er vísað í hvernig það er framkvæmt á landamærum í öðrum löndum og annað slíkt. Þá getum við líka farið í eftirlitið. Þar er mjög strangt eftirlit sem fer eftir áhættugreiningu. Þegar maður starfaði sjálfur í lögreglunni fylgdist maður meira með ölvunarakstrinum á kvöldin og um helgar. Það er eitt sem þarf að ganga úr skugga um að sé vel gert. Þá þurfa sektarheimildirnar líka að virka. Ekki er nóg að hafa sektarheimild ef henni er ekki beitt, að það taki einhvern veginn langan tíma og virki ekki. Ganga þarf úr skugga um að það sé ekki. Ég hugsa að það sé alveg hægt að gera þetta vel og skipuleggja það vel, alveg eins og það hefur gengið vel að skipuleggja skimanir og bólusetningar. Ég er búinn að skoða það á Suðurnesjum í dag og það er alveg til fyrirmyndar hvernig heilbrigðisstarfsfólk stendur að þessu, hvernig það bregst við. Ég veit að við getum gert það líka hvað eftirlitið varðar. Ég bara veit það.

Þannig að framkvæmdin skiptir máli og líka að það sé alveg á hreinu hvernig er sótt um undanþágur og hvernig fólk getur stýrt þessu. Ég hlakka til að taka þátt í nefndinni, spyrja út í framkvæmdina, spyrja út í tölulegar upplýsingar og allt það. Allt snýst þetta jú um að við höldum samstöðunni. Þá má ekki gera þetta þannig að fólki finnist of langt gengið, að brotið sé á jafnræði eða að þetta sé ómarkvisst. Fólk þarf svolítið að hafa þá tilfinningu að verið sé að gera það sem þarf að gera, að ekki sé verið að ganga lengra heldur en þarf. Það þarf að sjá planið, sjá fyrirsjáanleika, að ekki sé þessi endalausa óvissa, upplýsingaóreiða og annað slíkt.

Ég hlakka bara til að takast á við að fylgja þessu púsli eftir í gegnum velferðarnefnd, fá upplýsingar um það og sjá hvert sú vinna leiðir okkur. Ég minni bara á að við erum rétt að komast í gegnum storminn. Við verðum að klára það saman og við erum á réttri leið.