151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar.

747. mál
[02:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta velferðarnefndar. Ég ætla ekki að lesa nefndarálitið frá orði til orðs, herra forseti, heldur stikla á stóru. Ég vil í upphafi minna hv. þingmenn á að það frumvarp sem við ræðum hér er um heimildarákvæði til bráðabirgða sem fela í sér tilteknar heimildir til ráðherra, að fengnum tillögum frá sóttvarnalækni, til að grípa til ráðstafana á landamærunum.

Almennt um umfjöllun nefndarinnar: Við leggjum áherslu á að það er mikilvægt að klára þetta mál og klára afgreiðslu þess sem hraðast. Það er mikilvægt að þessi heimild til ráðstafana sé fyrir hendi fyrir sóttvarnayfirvöld.

Nefndin fjallaði nokkuð um réttindi barna og komið var inn á þau atriði fyrir nefndinni að það skipti máli að horft væri til hagsmuna barna og réttinda barna þegar rætt væri um sóttvarnaaðgerðir. Fyrsti minni hluti nefndarinnar beinir því til ráðherra að huga sérstaklega að þessum réttindum og að horft verði til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar fjallað er um þessi mál.

Breytingartillögur 1. minni hluta snúa fyrst og fremst að því sem hefur verið talað um sem hááhættusvæði. Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að skylda til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi ferðamann sem kemur til landsins frá hááhættusvæði eða svæði þar sem fullnægjandi upplýsingar um samfélagssmit liggja ekki fyrir. Ráðherra birti lista yfir svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði og almennt skuli miðað við að hann sé uppfærður á 14 daga fresti. Síðan er nefnt í greinargerðinni að nota viðmiðið 750 eða 1.000 smit á 100.000 íbúa á 14 daga fresti. 1. minni hluti tekur hins vegar fram að tölur um nýgengi smita í greinargerðinni eru eingöngu nefndar í dæmaskyni. Vakin er athygli á að mismunandi töluleg gildi um smittíðni geta endurspeglað mismikinn alvarleika, m.a. eftir þeim stofnum veirunnar sem eru í gangi á hverjum tíma auk þess sem hlutfall jákvæðra sýna af fjölda tekinna sýna á hverjum stað getur haft áhrif á matið.

Í umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að til bóta væri að skilgreina framangreind atriði í lagatexta. 1. minni hluti telur að löggjöfin verði að veita ráðherra og sóttvarnalækni svigrúm til að skilgreina hááhættusvæði eftir því sem faraldrinum vindur fram. Þannig væri varhugavert að löggjöfin kvæði á um að hááhættusvæði skyldi skilgreina út frá tilteknum nýgengisstuðli enda þarf mat ráðherra að geta byggst á fleiri þáttum þar sem m.a. getur þurft að taka tillit til mismunandi afbrigða veirunnar líkt og áður kom fram. Þó telur 1. minni hluti rétt að í lagaákvæðinu verði sérstaklega tiltekið að við skilgreiningu á hááhættusvæði í reglugerð megi m.a. líta til nýgengisstuðuls smita og mismunandi afbrigða veirunnar.

Ég held að ég vindi mér bara næst í að útskýra breytingartillögurnar, sem hljóða svo:

„1. Við 1. gr.

a. Í stað orðanna „eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið“ í 1. málsl. 1. efnismgr. komi: eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.“ — Þetta er í raun orðalagsbreyting, ekki efnisbreyting.

„b. Síðari málsliður 1. efnismgr. orðist svo:

Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.

c. Í stað 3. efnismgr. komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:

Að fenginni tillögu sóttvarnalæknis skal ráðherra í reglugerð skilgreina hááhættusvæði. Við skilgreininguna er m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru. Heimilt er að skilgreina tiltekið land sem hááhættusvæði enda þótt einungis afmarkaður hluti þess uppfylli framangreind skilyrði samkvæmt skilgreiningu í reglugerð. Ráðherra skal birta lista yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Listinn skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á tveggja vikna fresti.

2. Í stað orðanna „hááhættusvæði eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið“ í 1. málsl. efnismálsgreinar 2. gr. komi: hááhættusvæði, sbr. ákvæði til bráðabirgða við sóttvarnalög, nr. 19/1997, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um.“

Að svo mæltu hef ég lokið máli mínu.