151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[02:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er hlaupinn í mig einhver galsi þó að þetta sé ekkert sérlega fyndið. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu Flokks fólksins við frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga, um sóttvarnahús og för yfir landamæri. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum hvernig Flokkur fólksins hefði viljað standa að sóttvörnum á okkar blessaða landi. Ég ætla að tala hér um þessa breytingartillögu okkar, með leyfi forseta:

„1. gr. orðist svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 1. gr. þurfa allir ferðamenn sem koma til landsins á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021 að dvelja í sóttvarnahúsi eigi skemur en sjö daga frá komu. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður fram á með fullnægjandi hætti að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar í húsnæði á eigin vegum.

Ferðamaður skal greiða fyrir dvöl í sóttvarnahúsi skv. 1. mgr.

Umsókn um undanþágu skal hafa borist sóttvarnalækni a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins. Ferðamaður sem fær undanþágu til að vera í sóttkví í húsnæði á eigin vegum skal vera undir sams konar eftirliti eins og um sóttvarnahús á vegum stjórnvalda væri að ræða og á eigin kostnað.

Sóttvarnalækni er heimilt að fella niður kostnað skv. 2. og 3. mgr. ef greiðsla hans yrði verulega íþyngjandi fyrir einstakling vegna fjárhagsstöðu hans eða félagslegra aðstæðna.“

Í greinargerð með breytingartillögunni kemur fram að líf og heilsa landsmanna verði að vera í fyrsta sæti og það skuli tryggja með öllum tiltækum ráðum. Ég ætla ekki að fara lengra út í þetta en ætla bara að bæta því við að það vekur furðu að við skulum nánast vera með frumvarp heilbrigðisráðherra óbreytt ef miðað er við alla þá gesti og sérfræðinga sem komu fyrir velferðarnefnd í dag. Ég batt vonir við að ég hefði getað dregið þessa breytingartillögu til baka og getað orðið þokkalega sátt við þá úrvinnslu sem hér hefði verið viðhöfð. En því miður er ekki svo.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, sagði hér í ræðu á undan mér, að ýmislegt kom fram, þar á meðal það sem var svolítið sláandi, þ.e. hve ástandið er í raun eldfimt úti um allt og að sóttvarnalæknir var ekki einu sinni hafður með í ráðum þegar frumvarpið, sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur hér fram, var smíðað. Miðað við að heyra í sóttvarnalækni, landlækni og þeim sem komu fyrir nefndina í dag eru þessi vinnubrögð eiginlega alveg með ólíkindum. Ég hafði bundið vonir við að við hefðum t.d. getað sammælst um margt. Ég nefni sem dæmi þau tímamörk sem við fylgjum í breytingartillögunni. Landlæknir telur líka að það skipti afskaplega miklu máli að koma því inn í lögin skýrt og skorinort, þannig að það sé alveg ótvírætt, að sóttvarnalæknir hafi þær heimildir sem hann telur nauðsynlegar til að uppfylla markmiðin sem fylgja starfi hans, sem eru í raun að koma í veg fyrir að faraldur spretti hér upp ef svo ber undir.

Nú erum við í fordæmalausu ástandi að glíma við heimsfaraldur sem ég vona að ekkert okkar eigi eftir að þurfa að upplifa aftur. En því miður er líka að koma í ljós að nú eru að spretta upp afbrigði sem valda ugg og valda áhyggjum landlæknis og sóttvarnayfirvalda. Ég segi: Það er ástæða, virðulegi forseti, til að mismuna ekki þeim sem koma hér um landamærin. Það er ástæða til þess að eitt gangi yfir alla. Það er ástæða til þess að hafa reglurnar fyrirsjáanlegar og skýrar og hafa þær þannig að frekar dragi úr komum fólks til landsins en að þeim fjölgi.