151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[03:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu hv. þm. Halldóru Mogensen í fjarveru hennar. En fyrst vil ég segja það að við í þingflokki Pírata styðjum hertar aðgerðir á landamærunum til að auka frelsið innan lands, ég vil hafa það alveg skýrt. Það stendur heilt yfir betur vörð um réttindi borgaranna, það fórnar minni hagsmunum fyrir meiri hagsmuni, minna frelsi fyrir meira frelsi. Sérstaklega er mikilvægt að ferðalangar viti að hverju þeir ganga þegar þeir ferðast eða yfir höfuð athafna sig í hinu daglega lífi. Takmarkanir okkar þurfa að taka mið af því að skýrleiki frelsisskerðingar af einhverju tagi er mjög mikilvægur og er reyndar grundvallaratriði. Það má takmarka mannréttindi undir ákveðnum kringumstæðum samkvæmt stjórnarskrá og samkvæmt mannréttindasáttmálum og alþjóðaskuldbindingum. Það má en það er alltaf innan ákveðins ramma. Það má ekki gera það bara vegna þess að fólk vill það. Það má ekki gera það bara vegna þess að fólk telur það mikilvægt. Það þarf líka að standast skilyrðin sem eru sett fyrir þeim takmörkunum.

Ein af þeim takmörkunum sem við búum við á Íslandi, sem betur fer, er sú að ekki er hægt að kveða á um frelsisskerðingu af þeirri tegund sem var kveðið á um í reglugerð nýlega án lagastoðar. Það sem gerist þegar slík slys eiga sér stað er að sú heimild til frelsisskerðingar í reglugerðinni verður ógild. Það er skaðlegt, virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að á samfélagsmiðlum og víðar er Pírötum gjarnan kennt um þetta eða einhverjum öðrum sem vilja vanda sig við þessar mikilvægu aðgerðir sem við þurfum að leggjast í. En þingflokkur Pírata situr ekki í Hæstarétti. Við vöruðum hins vegar við þessu. Við sáum þetta fyrir. Það er víða túlkað sem andstaða við hertar aðgerðir. Sá misskilningur er hér með leiðréttur. Það skiptir máli, þegar við skerðum frelsi borgaranna og takmörkum mannréttindi af illri nauðsyn, að við gerum það rétt, að við klúðrum því ekki aftur. Þess vegna er málsmeðferðin sem þetta mál fær hér í nótt óþolandi.

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika enn og aftur, og hef gert það margoft áður í ræðum, að jafnvel þótt hraðinn sé nauðsynlegur breytir það því ekki að þegar við vöndum okkur ekki eykur það líkurnar á öðru klúðri, fleiri mistökum við það að skerða mannréttindi, og það er grafalvarlegt. Það er ábyrgðarhluti meiri hlutans og okkar hér á Alþingi að þegar við neyðumst til að fara út í slíka umræðu, sem í eðli sínu er ógeðfelld, þá vöndum við okkur og hlustum hvert á annað, hlustum á áhyggjurnar og tökum þær alvarlega, jafnvel þótt við séum líka hrædd og sérstaklega vegna þess að við erum líka hrædd.

Virðulegi forseti. Réttarríkið er ekki umsemjanlegt. Það er ekki háð duttlungum einstakra þingmanna, það er háð dómstólunum, það er háð eðli þess valds sem yfirvöld hafa til að setja reglugerðir. Okkar vald til að setja lög er háð þeim sömu takmörkunum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr — og ætti okkur almennt að líka það betur ef út í það er farið. Þær heimildir sem yfirvöld fá til að skerða frelsi borgaranna þurfa í það minnsta að vera mjög skýrar. Þar vík ég að því sem ég hef áhyggjur af þegar kemur að frumvarpinu sem mig langar að styðja og hugðist styðja fyrr í dag, en er ekki viss um að ég geri lengur. Ef heimildin er ekki nógu skýr er hætt við því að hún verði dæmd ólögmæt af dómstólum, ekki af þingflokki Pírata eða stjórnarandstöðunni á Alþingi heldur af dómstólum og það er mjög alvarlegt ef það gerist aftur. Við verðum að vanda okkur. Við verðum að passa okkur. Við megum ekki falla í þá gildru að líta á mannréttindi, stjórnarskrárvarin mannréttindi, sem einhver forréttindi, það eru þau ekki. Þau eru fyrir okkur öll. Fólk sem hefur næg forréttindi þarf sennilega minna á þeim að halda en þau verst settu, jaðarsettir minnihlutahópar og hvaðeina.

Að því sögðu ætla ég að gera grein fyrir breytingartillögu sem við leggjum hér fram í þeirri veiku von að hugsanlega verði tekið tillit til hennar að einhverju leyti og hægt verði að fyrirbyggja mistök. Þó verð ég líka að segja að tíminn sem við höfum til að vinna þetta mál býður ekki upp á þau vönduðu vinnubrögð sem við í þingflokki Pírata myndum venjulega vilja viðhafa. Ég ætla að renna stuttlega yfir þessar breytingartillögur. Þær eru í tveimur töluliðum og tveimur stafliðum innan fyrri töluliðarins. Í a-lið fyrri töluliðar segir:

„Barn skal að jafnaði sæta sóttkví í heimahúsi. Telji sóttvarnalæknir nauðsynlegt að vista barn í sóttvarnahúsi skal fyrst fara fram mat á áhrifum vistunarinnar á barnið. Við það skal lagt mat á hvort önnur vægari úrræði geti náð sama markmiði og eins hvort grípa þurfi til mótvægisaðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum á barnið.“

Nú hygg ég að meiri hlutinn ætti að geta stutt þetta, samanber nefndarálit 1. minni hluta. En einhvern veginn ætla ég að spá því fyrir, vegna málsmeðferðarinnar hér, sem því miður er dæmigerð á tímum sem þessum, að svo verði ekki. Ég spái því að þessari tillögu verði hafnað af þeirri einföldu ástæðu að hún kemur ekki úr átt sem hlustað er á, af einni eða annarri ástæðu.

Í b-lið fyrri töluliðar segir:

„Einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu og fötluðu fólki sem ekki getur sætt sóttkví í sóttvarnahúsi vegna aðstæðna sinna eða fötlunar skal ekki gert að sæta slíkri dvöl.

Við setningu reglugerðar skv. 1. mgr. skal framkvæmt mat á samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Einstaklingar sem dvelja í sóttvarnahúsi í sóttkví skulu eiga rétt til útivistar í klukkustund á dag.

Einstaklingar sem dvelja í sóttvarnahúsi í sóttkví eða einangrun skulu eiga rétt á upplýsingum um réttindi sín og skyldur á tungumáli sem þeir skilja.“

Ekkert af þessu er róttækt. Allt af þessu er sáttamiðað og sett fram í því augnamiði að reyna að fá sátt um þetta mikilvæga mál. Auðvitað erum við í neyðaraðstæðum, auðvitað er neyðarástand og auðvitað erum við að leggja fram frumvarp sem okkur ætti öllum að vera mjög illa við í eðli sínu. En við skiljum neyðina, við skiljum ógnina og hætturnar og það ætti að neyða okkur til að vanda okkur þannig að við skerðum frelsið eins lítið og við mögulega getum og einungis til að ná settu markmiði. Þetta sjálfsagða fyrirbæri er kallað meðalhóf en ég ætla að sleppa því að fara út í þær lögskýringar hér, ég ætlast til þess að þingmenn skilji þær.

Annar töluliður breytingartillögunnar fjallar um 2. gr. en hún gerir það að verkum að yfirvöldum verður heimilt að synja útlendingum, þ.e. þeim sem eru ekki íslenskir ríkisborgarar, um að koma til landsins yfir höfuð. Þá er í þeirri grein gefin heimild fyrir undanþágum fyrir fólk, t.d. á grunni búsetu.

Virðulegi forseti. Aftur: Það er ekki skýrt hvað það þýðir. Það er fólk sem býr hér og hefur búið hér í mörg ár en er ekki íslenskir ríkisborgarar. Við gerum kannski ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerð sem er mannúðleg og í samræmi við það sem við myndum á góðum degi kalla mannréttindi. En það er ekki ljóst samkvæmt frumvarpinu og við leggjum því til að það sé gert skýrt að útlendingum sem hafa búsetu á Íslandi sé ekki meinað að koma til landsins.

Virðulegi forseti. Ég held ég láti þetta gott heita. Mér sýnist á umræðunni að ekki sé mikill fílingur fyrir því að halda hér miklar og langar ræður, enda held ég að ég hafi komið til skila því helsta sem mér og okkur liggur á hjarta. Ég vildi bara svo innilega óska þess að á svona tímum þyrftu vinnubrögðin einhvern veginn ekki að vera óþolandi, að á svona tímum, þegar við þurfum að standa saman sem þing og þjóð, gæti Alþingi sýnt meiri stuðning en svo að fjölmennasta nefndarálitið sé í nafni 1. minni hluta.

Virðulegi forseti. Þetta þurfti ekkert að gerast svona. Það þurfti ekkert að klúðra þessari reglugerð á dögunum. Það var alveg hægt að komast hjá því. Það var alveg hægt að hlusta. Það er alveg hægt að hlusta núna.