151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[03:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að sitja þennan langa maraþonfund í velferðarnefnd, sem stóð fram undir miðnætti, fyrir hönd Miðflokksins. Því miður færðist enginn þeirra þátta sem mér sýndist þörf á að laga, þegar frumvarpið var lagt fram hér í þinginu í gærkvöldi, til betri vegar við meðferð nefndarinnar í dag og það blasir við í áliti 1. minni hluta velferðarnefndar, sem svo heitir, sem er nú þrátt fyrir allt svokallaður meiri hluti. Undir það nefndarálit skrifa fjórir stjórnarþingmenn, Ólafur Þór Gunnarsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Árnason. Meiri er samstaðan og stuðningurinn ekki hvað þetta mál varðar.

Ég spurði flesta gesti, a.m.k. framan af fundinum, hvers vegna svona mikið lægi á. Ríkisstjórnin hefur verið að gaufa með þetta vandamál vikum saman en síðan fær þingið sólarhring til að klára það. Við sitjum hér klukkan að ganga fjögur að nóttu og ekki hefur verið opnað á neitt annað en að málið klárist innan sólarhringsins. Og svörin, þegar spurt er hvers vegna svona mikið liggi á, eru fyrst og fremst þeirrar gerðar að það sé svo gott að klára þetta strax. En þegar betur er að gáð skiptir sáralitlu máli ef nokkru þó að þingið hefði nokkra daga aukalega, ekki til að stoppa málið eða neitt þess háttar heldur bara til að bæta það sem svo sannarlega er þörf á. En það mátti ekki heyra á það minnst af fulltrúum meiri hlutans. Staðreyndin er sú að áhrifa þessarar lagasetningar, sem verður væntanlega afgreidd hér innan skamms, mun ekki gæta á morgun, þeirra mun ekki gæta fyrr en í næstu viku. Hinn raunverulegi dráttur í þessu máli sem ríkisstjórnin rak sig svo illilega á í byrjun mánaðarins að væri í ólestri, sá tími sem þau færðu til betri vegar á grundvelli þessarar nýju lagasetningar myndi ekki hnikast til baka sem neinu nemur gæfu menn sér tíma til að vinna málið með forsvaranlegum hætti. Ég vil bara ítreka það að ríkisstjórnin hefur gaufað með málið vikum saman og þá helst með þeim rökum að verið væri að leggja mat á hvort þörf væri á þessu en loksins, þegar það liggur fyrir að þörf er á þessu, þarf það að gerast innan dagsins. Það er ekki góður bragur á þessu.

Því miður finnst manni margt benda til þess að ríkisstjórnin lendi í sambærilegu havaríi og í byrjun mánaðarins þegar héraðsdómur kvað upp þann úrskurð að reglugerð heilbrigðisráðherra hefði ekki lagastoð. Í ljósi þessa er ekkert annað í stöðunni en að ríkisstjórnin beri fulla og óskipta ábyrgð á þessu mál eins og það liggur fyrir.

Ég held að allir séu sammála um að það þurfi að skýra stöðu þessara mála. Sumir eru þeirrar skoðunar að það eigi að skella alveg í lás, eins og það er kallað, á landamærunum. Aðrir vilja stíga skref til baka, létta á, opna meira, draga úr takmörkunum og hindrunum. En eins og þetta frumvarp liggur fyrir er hvorug leiðin farin. Þetta mál er hvorki fugl né fiskur eins og það liggur fyrir. Hæstv. heilbrigðisráðherra kom fyrstur fyrir nefndina ásamt fulltrúum sínum og spurð út í flumbruganginn, með sama hætti og hefur komið fram í sjónarmiðum framsögumanns og annarra fulltrúa sem hafa talað máli heilbrigðisráðherra, var rökstuðningurinn fyrir nauðsyn þessa mikla hraða ekki sterkari en svo að ekki einu sinni fulltrúar ríkisstjórnarinnar í nefndinni skrifa allir upp á málið eins og það liggur fyrir.

Næst kom hæstv. dómsmálaráðherra fyrir nefndina sem heldur á annarri af tveimur reglugerðum sem eiga að forma það sem lagasetningin undirbyggir. Sú reglugerð er með þeim hætti að hér um bil allir sem ímyndunaraflið leyfir manni að telja upp eru með einum eða öðrum hætti undanþegnir henni að hluta til eða að öllu leyti. Það virðist vera að þeir einu sem ekki falla undir undanþáguákvæði reglugerðar dómsmálaráðherra eins og hún liggur fyrir í drögum séu túristar sem eru komnir hingað til lands til skemmri tíma til að taka þátt í þjóðhátíðinni í Geldingadölum, vilja kíkja á gosið og fara síðan út aftur. Það er ekki mikið stærri hópur en það sem raunverulega fellur ekki undir eitthvert af undanþáguákvæðum reglugerðarinnar eins og hún liggur fyrir í drögum.

Fyrir nefndina komu fleiri fulltrúar stjórnvalda án þess ég ætli að fara út í það í smáatriðum. Þangað komu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Magnús Gottfreðsson læknir. Vissulega voru sjónarmið þeirra á þá vegu að það væri til bóta að skýra þessa þætti og fyrsti tíminn væri bestur. En það var ekkert í málflutningi þeirra sem fékk mig til að skynja það sem svo að þetta þyrfti að gerast með þeim hraða sem hér er. Minn skilningur var sá að það yrði til miklu meira gagns að þingið tæki sér örlítið meiri tíma til að gera hlutina almennilega og ganga þannig frá að hald væri í, hvert sem markmiðið væri. Það gengur jafn illa í dag og flesta aðra daga að draga fram hver hin raunverulegu markmið stjórnvalda eru í þessu öllu. En aftur var algerlega óljóst hvers vegna þetta var svona brýnt eftir droll síðustu vikna.

Næstir komu framkvæmdaaðilarnir, þeir sem bera ábyrgð á því að framkvæma hlutina á grundvelli þessara reglna. Fulltrúar Rauða krossins komu þarna sem hafa borið ábyrgð á því að reka þessi svokölluðu sóttvarnahús hingað til. Það muna væntanlega flestir eftir því harmakveini sem kom frá þeim þegar síðasta reglugerð var dæmd ólögleg á endanum og í kjölfarið komu fram meldingar um að tryggja ætti öllum útivist sem hafði ekki verið heimilt í sóttvarnafangelsinu eins og það var útfært í fyrstu atrennu. Þá kom á daginn að ekki hafði verið rætt um það einu orði við fulltrúa Rauða krossins, sem þó fengu þá skyldu í fangið með engum fyrirvara, að tryggja þyrfti útivist þeirra sem dvöldu í sóttvarnahúsi.

Fyrir nefndinni kom fram að það er áætlað að undir lok maímánaðar verði rúmlega 1.000 manns, ef ég skildi gögnin rétt, í sóttvarnahúsi. Það var metið út frá því hvaða flug eru áætluð til landsins, hlutfall farþega, hvaðan þeir koma og þar fram eftir götunum. Það hvarflar ekki að mér að búið sé að gera fulltrúum Rauða krossins grein fyrir því að þeim muni bera skylda til að tryggja 1.000 manns útivist á dag eins og verkefnið liggur fyrir núna. Ég held að það hvarfli ekki að nokkrum manni sem sat þennan nefndarfund í dag að fulltrúar Rauða krossins séu viðbúnir því verkefni og hvað þá umhverfið sem hótelin búa við.

Svo var farið í gegnum sjónarmið sem sneru að sektargreiðslum og þar fram eftir götunum en ég ætla ekki að fara í það.

Það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af, eftir að hafa skoðað nefndarálit þessa fámenna meiri hluta, 1. minni hluta velferðarnefndar, eftir þennan maraþonfund, er þetta: Það skortir algerlega að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða og þeirra varnaðarorða sem komu fram hjá lögspekingum, lögfræðingum, sem komu fyrir nefndina. Það er engum vafa undirorpið að mjög ákveðin varúðarorð komu fram þar um að með þeirri útfærslu sem hér liggur fyrir væri verið að tefla á tæpasta vað. Það verður auðvitað að skoða þetta heildstætt, lagafrumvarpið eins og það liggur fyrir og síðan þessar tvær reglugerðir, aðra frá dómsmálaráðherra og hina frá heilbrigðisráðherra, sem útfæra það sem lögin veita heimild til. Ég held að það sjónarmið hljóti að vera öllum ofarlega í huga, eftir þessar gestakomur, að verið sé að setja allt of mikið í reglugerðir, miklu meira en æskilegt væri og nauðsynlegt miðað við það hvernig málið liggur. Þingið hefði þurft að setja miklu meiri leiðbeiningar, miklu fleiri efnisatriði, inn í lagatextann sjálfan sem reglugerðirnar hefðu síðan byggt á. Þetta er að mistakast algerlega, fullkomlega. Ég hreinlega trúði því ekki þegar ég las nefndarálit 1. minni hluta, svokallaðs meiri hluta nefndarinnar, þar sem ekki er vikið einu orði að þessu, ekki einu. Ég segi bara: Gangi mönnum vel með þetta. Ég ætla bara að spá því hér og nú að það verði einhverjir göngutúrar í héraðsdómstóla landsins á næstu vikum og mánuðum vegna flumbrugangsins í þessu máli.

Það er einfaldlega þannig að þrátt fyrir að heimsfaraldur gangi yfir þá má réttarríkið ekki gefa eftir. Við verðum að verja það. Það er beinlínis skylda okkar sem störfum á Alþingi að verja réttarríkið. Ég held að því miður gangi okkur ekki vel í því verkefni í dag eins og þetta liggur fyrir. Við verðum að hafa það í huga að stjórnarskráin og viðmið um meðalhóf eru ekki bara upp á punt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna. Það er lítil von til þess að breytingar verði á málinu hér eftir. Ég ítreka bara það, sem ég kom inn á í byrjun ræðu minnar, að ábyrgðin í þessu máli liggur alfarið og óskipt hjá ríkisstjórnarflokkunum. Miðflokkurinn ætlar ekki að taka neina ábyrgð á þeim flumbrugangi sem hér er viðhafður.