151. löggjafarþing — 83. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[04:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt að þjóðin er að kalla eftir hertari aðgerðum á landamærum og það hefur Flokkur fólksins hlustað á og í rauninni talað fyrir alveg frá því í janúar árið 2020. Í breytingartillögu okkar förum við í áttina að því sem gert hefur verið í sóttvörnum á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu. Við leggjum til sóttkví fyrir alla í sóttvarnahúsi og það er eiginlega alveg með ólíkindum að ekki skuli vera tekið utan um það af stjórnarandstöðunni — eða ekki, vegna þess að stjórnvöld brugðust við, ekki bara út af einhverjum nýjum áherslum Samfylkingarinnar heldur vegna þess að þau hrukku í kút þegar veiran fór aftur að flæða um innan lands. Það var nú eiginlega út af því að þau voru búin að bíða þetta af sér í hálfan mánuð frá því að dómur féll og þau misstu alla lagastoð undir það sem þau héldu að þau væru að gera. Það er engu að síður erfitt að greiða atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar eða heilbrigðisráðherra vegna þess að það er staðreynd að það er í rauninni verið að herða reglur á landamærunum þó að það sé í hálfgerðu skötulíki.