151. löggjafarþing — 84. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[04:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um ákvæði til bráðabirgða um heimild til að setja reglugerð um tilteknar ráðstafanir á landamærum, ráðstafanir sem gætu reynst nauðsynlegar fyrir sóttvarnalækni til að draga úr hættu á smitum á landamærum og útbreiðslu þeirra. Það hefði verið gott fyrir málið og gott fyrir samstöðu í samfélaginu að við gætum verið sammála um að renna styrkari stoðum undir nauðsynlegar ráðstafanir sóttvarnalæknis. Það hefur greinilega verið freistandi fyrir ýmsa í umræðunni hér í dag að láta þetta mál snúast um eitthvað annað, en það verður svo að vera. Aðalatriðið er að við erum sem samfélag að ná eftirtektarverðum árangri í baráttunni við faraldurinn innan lands og á landamærum og nú með stórauknum framgangi bólusetninga. Baráttan hefur gengið vel og ég vænti þess að okkur fylgi áfram góðar óskir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (SJS): Nú veit forseti ekki hvort hann náði alveg öllum niður en menn gefa sig þá fram ef þeir sakna sjálfs sín á mælendaskrá.)