151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

fjöleignarhús.

748. mál
[16:32]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús þar sem lagðar eru til breytingar á lögunum í tengslum við rafræn samskipti og fjölbreytt húsnæði. Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu að höfðu samráði við Samtök verslunar og þjónustu og Húseigendafélagið.

Nauðsynlegt er að leggja frumvarpið fram nú í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu þar sem mikil óvissa ríkir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Faraldurinn og samkomutakmarkanir vegna hans hafa haft bein áhrif á eigendur fjöleignarhúsa, m.a. vegna húsfunda, samskipta milli félagsmanna innan húsfélaga og ákvarðanatöku. Einnig er, í ljósi breyttra skipulagsáherslna og ört vaxandi mannvirkjagerðar með fjölbreyttu húsnæði nauðsynlegt að skapa eigendum aukið svigrúm til þess að víkja frá ákvæðum laganna með það að markmiði að bæta nýtingu og einfalda ákvarðanatöku vegna aðlögunar húsnæðisins að þörfum eigenda fjölbreytts húsnæðis.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu er lagt til að gera breytingar á lögum um fjöleignarhús og laga þau að þeim framförum í rafrænum samskiptum sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum og mæta því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu þannig að eigendum fjöleignarhúsa verði heimilað að halda rafræna húsfundi og nota rafræn skjöl og tölvupósta í samskiptum milli stjórnar og félagsmanna. Ákvæði laganna um húsfundi voru sett í lög áður en rafrænir samskiptamiðlar urðu jafn almennir og raunin er og gera þau því ráð fyrir að húsfundir séu haldnir þannig að félagsmenn mæti á ákveðinn stað og séu viðstaddir fundinn í eigin persónu. Þannig er hvorki í lögunum bein heimild til að halda rafræna húsfundi né um notkun rafrænna skjala og tölvupósts í samskiptum milli stjórnar og félagsmanna.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um fjöleignarhús þannig að annars vegar sé kveðið á um beina heimild til að halda rafræna húsfundi og hins vegar um notkun rafrænna skjala og tölvupósts í samskiptum milli stjórnar og félagsmanna. Markmið frumvarpsins er því að veita eigendum fjöleignarhúsa meira svigrúm og val um hvort húsfundir húsfélaga verði alfarið haldnir rafrænt eða að hluta til og hvort samskipti milli félagsmanna og stjórnar húsfélags verði rafræn.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að kveðið verði á um að húsfélögum í fjöleignarhúsum þar sem bæði er að finna íbúðir og húsnæði sem nýtt er fyrir atvinnustarfsemi verði heimilað að víkja frá ákvæðum laganna með setningu sérstakra húsfélagssamþykkta. Þar sem fjöleignarhúsalögin eru að meginstefnu til ófrávíkjanleg og að miklu leyti sniðin að þörfum íbúa í fjöleignarhúsum sem eingöngu eru með íbúðum verður að tryggja að lögin veiti nægilegan sveigjanleika til að takast á við rekstur í fjölbreyttum húsum, þ.e. húsum með bæði íbúðum og húsnæði til annarra nota svo sem fyrir atvinnustarfsemi.

Virðulegi forseti. Líkt og áður sagði var við samningu frumvarpsins haft samráð við Húseigendafélagið og Samtök verslunar og þjónustu. Auk þess voru drög að frumvarpinu birt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda og var tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu við samráðið eftir því sem unnt var.

Ég tel að verði frumvarpið að lögum muni það hafa jákvæð áhrif í erfiðum aðstæðum í þjóðfélaginu þar sem áhersla er lögð á að fleiri húsfélög geti haldið húsfundi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.