151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[17:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir andsvarið. Þar var kannski ekki nein bein spurning, en gefur mér tækifæri til að árétta að sjálfseignarstofnun sem skapar Hringborði norðurslóða umgjörð til framtíðar er mjög mikilvæg á sinn hátt, eins og miðstöð norðurslóða á Akureyri er mjög mikilvæg til framtíðar á sinn hátt. Og það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að byggja þetta hvort tveggja upp, að stilla því ekki upp sem andstæðum heldur sem verkefnum sem leiða okkur fram á veginn; Hringborði norðurslóða til að halda áfram að draga hér að fólk og vera segull til þess að skapa þá deiglu sem þarf í umræðuna, og Akureyri til að halda utan um það og miðla, m.a. innan þess hlutverks sem skrifstofur Norðurskautsráðsins hafa, CAFF og PAME. Þeirra hlutverk er bæði að draga saman og miðla upplýsingum innan þessa samstarfs. Það þarf að gæta þess að hvort tveggja geti sinnt hlutverki sínu vel, miðstöð norðurslóðamála á Íslandi á Akureyri og sjálfseignarstofnun um norðurslóðasetursetur á Íslandi, Hringborð norðurslóða.