151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna um þessa merku þingsályktunartillögu um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Ég mun koma inn á nokkur atriði í stuttri ræðu á eftir, en mig langaði til að spyrja hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hvort og þá hvernig samtali og samvinnu við dönsk stjórnvöld hefur verið háttað við vinnu við tillögu þingsályktunartillögunnar um aukið samstarf Grænlands og Íslands. Við vitum að sumt í málefnum Grænlands er á forræði Grænlendinga sjálfra en annað ekki og ég velti því fyrir mér hvort íslensk stjórnvöld hafi átt eitthvert samtal við dönsk stjórnvöld og þá um hvað, sem tengist þessari þingsályktunartillögu.