151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:09]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Bara svo það sé sagt til að byrja með þá ákvað ég það, ekki bara í þessu máli heldur líka þegar kemur að t.d. EES-skýrslunni og ég get nefnt fleira, að nýta mér í báðum tilfellum þekkingu og reynslu fyrrverandi stjórnmálamanna sem hafa djúpa þekkingu á málinu og þeir skrifa sínar skýrslur með sínum starfshópum. Mörg önnur þjóðríki sem eru stærri en við eru með alveg sér deildir innan sinna ráðuneyta sem gera slíka hluti og þó svo að sannarlega væru deildir sem tengjast þessu í utanríkisráðuneytinu mönnum til halds og trausts þá eru þetta skýrslur sem bera þess merki að vera frá sjálfstæðum vinnuhópum, ef þannig má að orði komast. Það er ekki þannig að utanríkisráðuneytið hafi samið þessa skýrslu. En hins vegar er þar lagt til að tillögurnar verði grunnurinn að samskiptunum milli Íslands og Grænlands.

Varðandi það hvort sé einhver áherslubreyting með nýjum stjórnvöldum í Bandaríkjunum þá er alveg ljóst að þar er mikill áhugi á norðurslóðum og þar af leiðandi Grænlandi og Bandaríkjamenn eru t.d. að opna ræðismannsskrifstofu og ég veit ekki til þess að nein breyting verði á því. Við sjáum það til að mynda núna með fundinn í Norðurslóðaráðinu að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur tilkynnt komu sína á þann fund. Varðandi aðrar þjóðir þá hafa þessir hlutir verið ræddir í Norðurlandasamstarfinu og iðulega erum við að ræða um norðurslóðamálin og þar af leiðandi Grænland líka. Ég kynnti þessa skýrslu fyrir öllum sendiráðum Íslands og það var mjög fjölmennur fundur, að vísu veffundur, og ég held ég fari rétt með að um 100 aðilar hafi tekið þátt í honum sem voru búnir að lesa ekki bara þessa skýrslu heldur líka skýrsluna Áfram gakk! um fríverslunarmálin. (Forseti hringir.) Það er mjög ánægjulegt að finna það hvað vinir okkar bæði nær og fjær höfðu kynnt sér þessi mál og þóttu þessar skýrslur báðar vera mjög athyglisverðar og ekki síst þessi Grænlandsskýrsla.