151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2020.

626. mál
[14:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um ályktanir Vestnorræna ráðsins sem fengið hafa þóknanlega umfjöllun utanríkismálanefndar. Í ár er sú nýbreytni tekin upp að leggja fram eina þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórnin er hvött til að vinna að framgangi þeirra þriggja ályktana sem samþykktar voru á ársfundi ráðsins í haust. Tvær þeirra eru líkar að sínu leyti, hvetja til formlegra samstarfs ráðherra sem fara með vestnorræn málefni, annars vegar um að samstarfsráðherrar Norðurlanda á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum geri með sér samstarfssamning sem kveði á um árlegan samráðsfund, og hins vegar um að ráðherrar Íslands, Grænlands og Færeyja, sem sinna norðurslóðamálum, fundi árlega um framgang vestnorrænna hagsmuna á norðurslóðum og gefi ráðinu sameiginlega skýrslu um stefnu vestnorrænu ríkisstjórnanna í norðurslóðamálum og gagnvart Norðurskautsráði. Þess er vænst að ályktanir þessar fái að njóta ríkulegs stuðnings hér á hinu háa Alþingi.