151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna alveg sérstaklega þeirri umræðu sem hér á sér stað varðandi, eins og segir í fyrirsögn þingsályktunartillögunnar, endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Flutningsmenn eru allir hv. þingmenn þingflokks Viðreisnar. Ég er ekki sammála efnisatriðum ályktunarinnar eða tel nokkurt vit í því að Ísland gangi í Evrópusambandið en það hefur verið þannig undanfarin ár að þeir flokkar sem byggja tilveru sína á þeirri von að ná eitt árið að plata þjóðina inn í Evrópusambandið, þeir flokkar sem byggja tilveru sína að miklu leyti í kringum það eina mál, Samfylking og Viðreisn — það var auðvitað kominn tími til að þessi umræða yrði tekin upp á yfirborðið, ef svo má segja. Það hefur blasað við í gegnum síðustu kosningar og í gegnum kjörtímabilið að mjög lítill áhugi hefur verið á því meðal þingmanna og fyrirsvarsmanna þessara tveggja flokka að ræða þessi mál. Hér er því komið kjörið tækifæri til þess og ég fagna umræðunni sem mun standa í á annan dag hér í þinginu.

Tímasetningin er auðvitað sérstök en hún bendir til þess að þingmenn Viðreisnar hafi metið það sem svo að ekki væri hægt að þegja um þetta helsta áhugamál þeirra öllu lengur. Það er erfitt að lesa tilefnið út úr þingsályktunartillögunni nema þá helst að þetta sé til sýnis. Og af hverju segi ég það? Jú, hér er vísað í endurupptöku viðræðna á grundvelli þingsályktunar frá 2009; hvenær hefja skuli formlegar aðildarviðræður að nýju og undirbúa tillögu til þingsályktunar þar að lútandi, sem að fengnu samþykki Alþingis yrði borin undir þjóðaratkvæði til endanlegrar staðfestingar. Og þá kemur rúsínan í pylsuendanum: Þjóðaratkvæðagreiðsla um endurupptöku viðræðna fari fram eigi síðar en í janúar 2022. Þetta finnst mér benda til þess að hugur fylgi ekki alveg máli, þessu sé meira flaggað til sýnis en að þingmenn Viðreisnar telji líkur á raunverulegum árangri hvað framgöngu málsins varðar. Það blasir við að ríkisstjórnin sem nú situr er ekki að fara að gera neitt í þessum málum, burt séð frá sjónarmiðum þeirra flokka sem hana mynda sem geta komið sér saman um ótrúlegustu hluti. En að þjóðaratkvæðagreiðsla um endurupptöku viðræðnanna eigi að fara fram eigi síðar en í janúar 2022, þegar kjósa á til Alþingis í lok september 2021, sýnir að þetta mál er allt óttaleg furða.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar fyrr í dag að Evrópa væri engin paradís. Það má til sanns vegar færa að margt mætti færa til betri vegar í Evrópu en það er þó þannig að í Brussel og í aðildarríkjunum Evrópu er sannarlega paradís skriffinnskunnar. Ég get sagt fyrir mig, og ég veit að um það eru félagar mínir í þingflokki Miðflokksins mér sammála, að ég held að það sé hreinlega ekki í eðli okkar Íslendinga að gangast skriffinnskunni svo rækilega á hönd sem hér er lagt til. Nóg er nú samt af reglusetningum á sjálfvirka færibandinu sem fylgir EES-samningnum.

Ef menn telja almennt að staða Íslands hefði verið betri, þegar við horfum til bankahrunsáranna t.d., hvort sem það eru mál sem snúa að Icesave-slagnum eða uppgjöri við kröfuhafana, verandi aðildarríki að Evrópusambandinu, held ég að það sé mikill misskilningur. Síðasta uppákoman er auðvitað þau mistök sem gerð voru hér hvað það varðar að hengja sig aftan í vagn Evrópusambandsins við öflun bóluefna en nú er búið að ræða nóg um það undanfarna daga og vikur.

Við sjáum það sem komið hefur verið inn á í ræðum hér á undan um stöðu mála hvað atvinnulíf aðildarríkjanna varðar. Þetta er kyrrstaða og afturför, erfiðleikar á vinnumarkaði, mikið atvinnuleysi. Lágir vextir eru oft nefndir en þessir lágu vextir sem Evrópusambandsríkin búa við núna koma ekki til af góðu. Þeir koma m.a. til af því að það er svo lítið í gangi í efnahagslífinu. Það er með öllum ráðum verið að reyna að nota stuðtækið, sem felst í peningaprentun og lágum vöxtum, um allt evru-efnahagskerfið. Ef menn telja aðild vera bestu leiðina fyrir Ísland út úr núverandi stöðu, í þeirri kreppu sem við erum í vegna Covid, er ekki hægt annað en að líkja því við það sem sumir hafa lýst sem þeirri aðgerð að banka upp á í brennandi húsi. Í því mun ég ekki taka neinn þátt.

Það er rétt að fagna umræðunni sem hér á sér stað. Okkur gefst þá tækifæri til þess að reyna að færa í rök annars vegar hvers vegna við ættum ekki að ganga í Evrópusambandið en kannski enn frekar að hlusta eftir sjónarmiðum þingmanna Viðreisnar og Samfylkingarinnar, þessara systurflokka hvað Evrópumálin varðar, og reyna að rýna í það hvað í veröldinni fær þessa tvo ágætu þingflokka til að vera enn þeirrar sömu skoðunar og þeir voru áður um að þetta sé leiðin fyrir okkur sem þjóð. Nokkrir þingmenn hafa komið inn á það í umræðunni hér á undan hvernig stendur á því að þeir aðilar sem mestan vilja hafa til að leiða Ísland inn í Evrópusambandið hafi engan áhuga á að spyrja íslenska þjóð spurningarinnar: Vilt þú ganga í Evrópusambandið eins og það er, bara eins og það er? Það er auðvitað það sem á endanum mun taka á móti okkur.

Það er ágætt að rifja það upp að þáverandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefan Füle, held ég hafi verið, trakteraði þáverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, með þeim hætti á blaðamannafundi — mig minnir að það hafi verið árið 2012 — að ekki væri um neinar varanlegar undanþágur að ræða. Það hafði blasað við öllum þeim sem vildu sjá árum saman að um var að ræða aðlögunarviðræður en ekki aðildarviðræður. Með hvaða hætti lagar ný aðildarþjóð sig að regluverki Evrópusambandsins? Það var ekkert verið að semja um það með hvaða hætti Evrópusambandið lagar sig að íslenskum lögum og reglum. Það er bara ekki þannig.

Við sitjum uppi með það að hér koma reglur inn á færibandi. Nú er t.d. í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins uppfærsla á reglum er snúa að endurmenntun atvinnubílstjóra, algerar furðureglur um að atvinnubílstjórar landsins þurfi að sitja á löngum námskeiðum á fimm ára fresti til að viðhalda ökuréttindum sínum. Meginrökin fyrir því eru þau að þeir þurfi auðvitað að hafa réttindi til að keyra yfir landamæri. Það hefur ekki verið talið alvöruvandamál á Íslandi að bílstjórar geti ekki daginn inn og daginn út keyrt yfir landamæri og þess vegna mörg á sama degi. Auðvitað hlýtur, ef einhver skynsemi er í málum, að vera hægt að útfæra leiðir með þeim hætti að þeir sem ætla að sinna störfum erlendis, innan Evrópusambandslandanna á meginlandinu, sæki sér þá einhver viðbótarréttindi. En það að fastsetja heila stétt reglulega á tilgangslitlum námskeiðum til að gleðja einhverja skriffinna í Brussel er ekki til þess fallið að auka tiltrú á því apparati sem Evrópusambandið er.

Að lokum, af því nú er tíminn að renna frá mér, þá var það nefnt hér áðan af hv. þm Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar, að íslenskt atvinnulíf væri bundið öllum þeim böndum sem evrópskt atvinnulíf er bundið. Það má til sanns vegar færa með marga þætti atvinnulífsins en það sem er lagt til í þessari þingsályktunartillögu er að þetta nái yfir alla þætti atvinnulífsins og alla þætti íslensks samfélags, og alltaf teygir Evrópusambandið sig lengra og lengra. Nú síðast teygði Evrópusambandið sig inn á málasvið heilbrigðismála með afleiðingum sem við þekkjum. Ég vona að þessi þingsályktunartillaga verði tilefni til áframhaldandi umræðu um þessi mál. (Forseti hringir.) En mér sýnist á inngangi málsins og þeim tímasetningum sem þar eru nefndar að málið sé fyrst og fremst til sýnis og einhvers lags dyggðaflöggunar inn í stuðningsmannahópa Viðreisnar og Samfylkingar.