151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

samstæðureikningar sveitarfélaga.

[14:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Niðurstaða álits nr. 1/2020 er býsna skýr, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Þau sjónarmið sem kveðið er á um í 75. gr. laga um ársreikninga, gilda einnig um samstæðureikning sveitarfélaga. Í því felst að í samstæðureikningi sveitarfélaga skulu notaðar sömu matsaðferðir og í ársreikningi A-hluta sveitarfélagsins. Noti félag í eigu sveitarfélags, sem færa skal inn í B-hluta þess, skv. 60. gr. sveitarstjórnarlaga, aðrar matsaðferðir í eigin ársreikningi en samstæðureikningur sveitarfélagsins byggir á, skulu unnin ný reikningsskil þar sem matsaðferðir eru í samræmi við samstæðureikning.“

Undanþága frá þessu gæti verið ef Reykjavíkurborg liti á Félagsbústaði bara sem fjárfestingarfélag þar sem verið væri að selja og kaupa eignir á grundvelli aðstæðna á markaði. Það blasir við að sú er ekki raunin. Þetta er býsna alvarlegt þegar nýlega hafa borist fréttir af því að 15 milljarða halli hafi orðið á rekstri Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) og miðað við fyrirliggjandi áætlanir verður að leiða þetta mál í jörð ef það kemur á daginn að eignahlið ársreikninga Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) er uppfull af froðu, sem allt bendir til að sé raunin.