151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

skráning samskipta í Stjórnarráðinu.

[14:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Vegna þess hluta fyrirspurnar hv. þingmanns sem varðaði reglur um skráningu formlegra og óformlegra samskipta, vil ég upplýsa það hér, eins og ég held reyndar að hafi komið fram í skriflegu svari mínu við fyrirspurn hv. þingmanns, að hver og einn ráðherra og hvert og eitt ráðuneyti ber ábyrgð á þessari skráningu. Það væri ekki úr vegi fyrir hv. þingmann að senda inn skriflega fyrirspurn á ráðuneytin um það hvernig þessari skráningu er háttað. Ég hef skilað þeim upplýsingum í þessu svari.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um samskipti við Høgna Hoydal, og vísar hann þá í frétt Stundarinnar þar sem ég svaraði fyrirspurn um þau mál, vil ég segja: Eins og ég skildi Høgna í viðtalinu sem við hann var haft í þætti sem sýndur var í ríkissjónvarpinu, vörðuðu þau samskipti breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í Færeyjum og þær breytingar voru samþykktar á færeyska löggjafarþinginu 15. desember 2017, þ.e. tveimur vikum eftir að ríkisstjórn mín tók við. Og hvað hafði farið fram í ríkisstjórn um þessi mál fyrir mína tíð — því get ég einfaldlega ekki svarað. Því þurfa þeir ráðherrar sem sátu í þeirri ríkisstjórn að svara. Hins vegar las ég sjálf fréttir um það þar sem haft var eftir utanríkisráðherra í þeirri ríkisstjórn, hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að hann hefði átt samtöl við utanríkisráðherra Færeyja um þau mál, þannig að ég held að hægt væri að kanna það.

Hvað varðar hins vegar Hoyvíkursáttmálann, sem síðar var lagt til að yrði sagt upp af hálfu Færeyinga, þá var það ekkert launungarmál og kom fram í máli margra okkar að við andmæltum þeirri uppsögn af hálfu Færeyinga. Þau samskipti eru öll til og m.a. var rætt um Hoyvíkursáttmálann og mikilvægi þess að tryggja góð samskipti í kringum þau mál á fundi mínum með lögmanni Færeyja, sem haldinn var 2018 í Þórshöfn í Færeyjum. (Forseti hringir.) Það eru kannski tvenns konar samskipti sem hafa átt sér stað um tvö mál og annað kom ekki upp í tíð minnar ríkisstjórnar.