151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

aðgerðir gegn verðbólgu.

[14:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég hef talsverðar áhyggjur þessa dagana. Áhyggjur mínar snúa fyrst og fremst að því hvaða þróun er að verða í verðbólgu hér á landi. Verðbólga hefur ekki verið hærri í átta ár um þessar mundir og hefur verið langt umfram væntingar spáaðila og langt umfram það sem Seðlabankinn hefur búist við í sínum spám. Seðlabankastjóri sagði í viðtali í síðasta mánuði að verðbólgan stafaði að miklu leyti af veikingu gengisins á síðasta ári, en nú hækkar gengið á ný og hann vonast til að ná tökum á verðbólgunni aftur með lægra verðlagi í verslunum, ég held að ég hafi nokkurn veginn farið rétt með það hér. Það er þó ljóst að inn í smásöluverðið reiknast alls konar kostnaður, t.d. flutningskostnaður, sem hefur hækkað verulega, verð á hrávöru, og síðan hefur verið samið um margvíslegar kjarabætur. Það er spurning hvort ekki blasi við að það sé ansi þung byrði að leggja það á verslunina í landinu að bregðast við þessum verðbólguþrýstingi öllum, eins og Seðlabankinn kallar eftir.

Spurning mín er þessi: Er hæstv. forsætisráðherra sammála þessari greiningu seðlabankastjórans á því hvernig við getum unnið gegn verðbólgunni? Er hæstv. forsætisráðherra sammála því að verðlag í verslunum verði að lækka, annars þurfi að grípa til sértækra aðgerða? Liggur ábyrgðin þarna? Blasir ekki við að hinar sértæku aðgerðir, sem ella þarf að grípa til, eru hækkun vaxta?